Áskorun til bæjarstjórnar Árborgar - 2. janúar 2020

on .

Selfossi 2. janúar 2020

B/t bæjarstjórnar Árborgar
Austurvegi 2
800 Selfossi

Áskorun til bæjarstjórnar Árborgar um bætt umferðaröryggi gangandi vegfaranda á Austurvegi á Selfossi.

Stjórn Félags eldri borgara á Selfossi skorar á bæjarstjórn Árborgar að hlutast til að bæta úr og auka öryggi gangandi vegfarenda á Austurvegi, frá því sem nú er, á vegarkafla á milli Rauðholts og Hörðuvalla. Fjöldi eldri borgara býr nú á þessu svæði og eðli málsins samkvæmt sækja þeir þjónustu yfir Austurveg. Auk þess sem aðrir sem búa á öðrum svæðum fara gangandi heiman frá sér til að sækja afþreyingu í félagsmiðstöðina Mörk.

Sem kunnugt er, eru gangbrautir við:

  • Gatnamótin við Reynivelli. Þar eru gangbrautarljós.
  • Á móts við KFC og Fossnesti. Lýsing ófullnægjandi.
  • Við gatnamót austan við Rauðholt. Lýsing ófullnægjandi.

Það er ekki hægt að segja að það vanti gangbrautir en þær eru ekki rétt staðsettar. Fólk á til að stytta sér leið og fara yfir Austurveg á milli gangbrauta. Langt er síðan þessar gangbrautir voru lagðar og umferðarþungi aukist mikið síðan. Með tilkomu, svo nefndu, Pálmatrés- og Leósblokka má benda á að þar koma þrjár nýjar inn- og útkeyrslur á Austurveg sem óneitanlega eykur slysahættu. Öldruðum einstaklingum hættir til að vanmeta gönguhraða sinn og eru ekki í sömu stöðu og þeir sem yngri eru að leggja mat á fjarlægð og hraða aðvífandi ökutækja.

Lagt er til að sveitarfélagið leiti til skipulags- og umferðarfræðings og fái fram hugmyndir um úrbætur sem best geta tryggt öryggi gangandi vegfaranda og sjái til að veghaldari ráðist sem allra fyrst í aðkallandi lagfæringar. Hafa þarf í huga staðsetningu gangbrauta, vandaða lýsingu og hraðatakmarkaðra aðgerða.

Stjórn FEB á Selfossi vill koma á framfæri þakklæti til bæjarstjórnar fyrir að hafa bætt við setbekkjum á Selfossi s.b. áskorun frá 10. maí 2019 með hvatningu um að bæta enn frekar í á þessu umrædda svæði sem og annars staðar.

F.h. stjórnar FEB á Selfossi
______________________________
Guðfinna Ólafsdóttir, formaður

Lýðheilsustígur á Selfossi

on .

Í desember sl. sendi stjórn Félags eldri borgara Selfossi eftirfarandi áskorun til bæjaryfirvalda í Svf. Árborg:

Stjórn Félags eldri borgara Selfossi skorar á bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar að koma upp lýðheilsustíg umhverfis lóð sjúkrahússins og lóð væntanlegs hjúkrunarheimilis á Selfossi sem allra fyrst.
Heilsubótarganga er góð forvörn við ellihrörnun og mun lýðheilsustígur á þessum stað því sinna því hlutverki vel og nýtast íbúum í húsnæði eldri borgara við Grænumörk og í þeim íbúðum sem verið er að byggja við Austurveg. Ennfremur mun rólfæru heimilisfólki á Fossheimum og Ljósheimum svo og væntanlegu hjúkrunarheimili gagnast slíkur stígur vel.
Vel gerður lýðheilsustígur á þessum stað mun stuðla að betri heilsu og vellíðan eldri borgara á Selfossi og mun örugglega draga úr öðrum kostnaði bæjarfélagsins vegna umönnunar aldraða.
Stígurinn þarf að vera vel fær fólki í hjólastólum og fólki með göngugrind. Hann þarf því að vera upplýstur og malbikaður. Á vetrum þarf að moka snjó af honum og sandbera. Þá þarf að setja hvíldarbekki við stíginn með hóflegu millibili.
Stjórn FEB Selfossi er reiðubúin til frekari viðræðna við bæjaryfirvöld og viðkomandi starfsmenn bæjarfélagsins um þetta efni.
Stjórn FEB Selfossi vekur athygli á þessu þarfa lýðheilsumáli og hvetur önnur félagasamtök, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga til að styðja málið og vinna ötullega að framgangi þess.

Frá aðalfundi 2017

on .

Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi

Tvöföldun hjúkrunarrýma í nýju hjúkrunarheimili sem á að rísa á Selfossi – Vilja notendavænni þjónustu hjá HSu

Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi var haldinn 23. febrúar sl., að Grænumörk 5. Fundinn sóttu rúmlega 110 félagsmenn. Í skýrslu stjórnar kom fram að starfsemi félagsins á sl. ári var mjög fjölbreytt og þátttaka félagsmanna yfirleitt mjög góð. Nánari upplýsingar um félagsstarfið eru á vefsíðu félagsins febsel.123.is
Félagsstarfið hefur fyrir löngu sprengt af sér núverandi húsnæði en aðstaðan mun batna verulega með nýrri byggingu sem hafin er austan við Grænumörk 5.
Rekstur félagsins gekk þokkalega á árinu og skilaði 126 þús kr. afgangi. Félagsmönnum fjölgaði á árinu og voru 565 í árslok.
Sigríður J. Guðmundsdóttir var endurkjörin formaður til næstu tveggja ára. Heiðdís Gunnarsdóttir, sem verið hefur í stjórn félagsins í sex ár hefur lokið stjórnarsetu sinni og Óli Þ. Guðbjartsson, sem verið hefur í varastjórn í fjögur ár, gaf ekki kost á endurkjöri.

Stjórn félagsins skipa nú:
Sigríður J. Guðmundsdóttir, formaður
Guðmundur Guðmundsson, gjaldkeri
Anna Þóra Einarsdóttir
Jósefína Friðriksdóttir
Gunnþór Gíslason

Nýkjörnir varastjórnarmenn eru:
Guðfinna Ólafsdóttir
Stefán A. Magnússon.

Fundurinn samþykkti tvær ályktanir.
a) Tilmæli til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi, haldinn 23. febrúar 2017, beinir þeim eindregnu tilmælum til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að stofnunin leggi áherslu á notendavænni þjónustu en verið hefur um langt skeið. Til dæmis með því að notendur þurfi ekki að marghringja til þess eins að fá sig skráða á biðlista til hinna ýmsu sérfræðinga sem taka að sér þjónustu á vegum stofnunarinnar.
b) Ályktun um hjúkrunarheimili.
Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi, haldinn 23. febrúar 2017, vekur athygli á því að lokun hjúkrunarheimilanna á Blesastöðum, sl. haust, og Kumbaravogi, nú í lok febrúar, fækkar hjúkrunarrýmum í Árnessýslu um 41 og eykur verulega þann mikla skort sem er á hjúkrunarrýmum í sýslunni. Fundurinn skorar því á heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn að fjölga hjúkrunarrýmum úr 50 í 100 í nýju hjúkrunarheimili sem samið hefur verið um að reisa á Selfossi og áætlað að taka í notkun á fyrri hluta ársins 2019. Fundurinn hvetur jafnframt til þess að byggingu hjúkrunarheimilisins verði hraðað svo sem kostur er.

 

Forsíðu tilkynning

on .

KYNNINGARFUNDUR Á STARFI FÉLAGS ELDRI BORGARA Á SELFOSSI

Kynningarfundur verður 21. september kl. 14.45 í Grænumörkinni. Kaffiveitingar og kynningar!

Fjölmennum á kynningarfundinn!!