2. stjórnarfundur 22.03.24

 

 


Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi (5/2024).
Annar fundur stjórnar FEB Selfossi, haldinn föstudaginn 22.03.2024, kl. 9:00
í Uppsölum í Grænumörk 5.

Mætt: Magnús J. Magnússon (MJM) formaður, Ólafía Ingólfsdóttir (ÓI) varaformaður, Elín Jónsdóttir (EJ) gjaldkeri, Guðrún Þóranna Jónsdóttir (GÞ) ritari, Ólafur Bachman (ÓB) meðstjórnandi, Ólafur Sigurðsson (ÓS) og Valdimar Bragason (VB) varamenn.
1. Fundur settur af formanni kl. 9:00.
2. Fundargerð síðasta fundar lögð fram og samþykkt samhljóða.
3. Fundir með formönnum og þingmönnum 1. mars. Góður fundur með formönnum félaga eldri borgara á Suðurlandi og þingmönnum Suðurkjördæmis. Ákveðið var á fundinum að þingmenn Suðurkjördæmis hitti formenn félaganna einu sinni á ári, að hausti. Fyrsti fundur verður í haust. MJM mælir með því að kjaramál verði sett á oddinn, félögin einbeiti sér að kjarapakkanum. Stefnt er að formannafundi í vor í Vestmannaeyjum. Rætt u m á fundinum að öll öldungaráð landsins hittist árlega.
4. Hvað er framundan. Vor í Árborg, 25. og 27. apríl. Rætt um að þá verði sýning á verkum fólks frá námskeiðum. Það eru sex Opin hús fram til vors. Í fyrsta Opna húsi eftir páska verður Öldungarráð Árborgar. Öldungaráðið situr í panel og pallarnir settir upp.
5. Önnur mál.
a) Bréf hefur borist frá Móbergi þar sem er óskað eftir félagsskap eldri borgara fyrir þá sem eru á stofnuninni. Það verður auglýst í opnu húsi 4. apríl.
b) Síðasta opna húsið í vor verður 16. maí, ákveðið var að byrja kl. 14. Þá mun línudanshópurinn sýna línudans og leiklestrarhópurinn koma fram og jafnvel fleira. Samþykkt var tillaga um að bjóða fólkinu í Árbliki.kl.
c) Karen Margrét er meistaranemi í opinberri stjórnsýslu í HÍ. Hennar meistaraprófsritgerð fjallar um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, Gott að eldast. Karen Margrét vill fá að heyra frá fólkinu sem nýtir þjónustuna og óskar eftir að ræða við stjórn félagsins. Ákveðið var að bjóða henni á stjórnarfund 5. apríl.
d) EJ kannaði kaup á bingói fyrir félagið. Ákveðið var að kaupa almennilegt bingó og gjaldkera falið að sjá um það. Einnig var rætt um að stofna bingónefnd.
e) Pílukast rætt og hvort væri hægt að nýta spjaldið sem er í Uppsölum eða ætti að finna því annan stað. Verður skoðað.
f) MJM talaði um skoða aftur hvort áhugi væri fyrir skákklúbbi – verður kannað og rætt á næsta fundi.
g) Elín hefur verið að kynna sér samskiptaforritið sportable. Það virðist að þetta sé aðallega í notkun hjá íþróttafélögum, þetta verður skoðað enn frekar hvernig notkun hentar félagi eldri borgara Selfossi.
Næsti stjórnarfundur 05.04.24 kl. 10:30.
Fundi frestað 9:25
-----------------------------------------------------------------------------------------------
Fundur settur á ný kl. 09.30 – 10.30
Framhaldsfundur stjórnar og nú með nefndum FebSel
Nefndarmenn sem mættu voru: Ingibjörg Stefánsdóttir, Vigdís Guðmundsdóttir frá ferðanefnd, Svala Halldórsdóttir frá öndvegisbókmenntum, Kristín Stefánsdóttir frá félagsvistarnefnd, Guðrún Guðnadóttir frá árshátíðarnefnd, Guðmundur Guðmundsson frá fornbókmenntum, Guðfinna Ólafsdótttir og Nanna Þorláksdóttir frá leihúsnefnd. Stjórnarfólk kom einnig inn fyrir ýmsar nefndir.
Formaður bauð nefndarfólk velkomið og ræddi um mikilvægi nefndanna fyrir starf FebSel. Hann bað nefndarfólk að fara yfir hvernig starfið hefði gengið í vetur og hvort einhverju þurfi að breyta fyrir næsta vetur.
Árshátíðarnefnd: Ólafur Bahcman. og Guðrún Guðnadóttir. Árshátíðin í vetur var á Hótel Selfoss. Hún gekk vel, mjög góð mæting. Fram kom að næsta árshátíð félagsins verður 7. nóvember og búið að panta aftur Hótel Selfoss fyrir hátíðina og leggja drög að skemmtiatriðum. Einnig mun nefndin koma að aðventuhátíðinni sem verður 5. desember.
Viðburðastjórn: Ólafur Sigurðsson og Guðfinna Ólafsdóttir. Stjórnin telur sex aðila það er mjög gott því alltaf þarf að undirbúa viðburð á fimmtudögum. Það þarf að sjá um að salurinn sé uppsettur, stundum þarf að setja upp sviðspalla. Einnig þarf oft að aðstoða við frágang. Ólafur lagði áherslu á mikilvægi þess að fá Kvenfélag Selfoss áfram til að sjá um veitingar en alls ekki að hækka verðið. Spurning um hvort að alltaf þarf að hafa skemmtikraft/fyrirlestur. Stundum væri hægt að hittast og spjalla saman. Einnig kom fram að FebSel áformar að kaupa bingóspjöld og tromlu og það mætti hugsa sér að hafa bingó nokkrum sinnum á vetri. MJM hvatti fólk til að vera óhrætt við að brjóta upp dagskrá og að koma með nýjar hugmyndir.
Ferðanefnd: Ingibjörg Stefánsdóttir og Vigdís Guðmundsdóttir – Síðasta ár gekk þokkalega. Nefndin er öll tilbúin að vera áfram. Allar ferðir næsta sumars verða á þriðjudögum,18. Júní verður farið í Grímsnesið með leiðsögn Unnar Halldórsdóttur, 16. júlí verður farið austur undir Eyjafjöll, einu sinni á ágústkvöldi útilega 20.-21. ágúst í Árnesi. Haldið verður í Holt og Landssveit þann 10. september. Pálmi Sigfússon og Vigdís Guðmundsdóttir munu sjá um leiðsögn á þeim slóðum.
Félagsvist: Kristín Stefánsdóttir. Fram kom að fjórir eru í nefndinni og spilað var allt síðastliðið sumar. Góð mæting hefur verið og yfirleitt spilað á 10 – 12 borðum.
Leikhúsnefnd: Guðfinna Ólafsdóttir og Nanna Þorláksdóttir. Það hefur verið farið tvisvar á Deleríum Búbónes. Boðið var upp á tvær áhugaleiksýningar, Litlu Hryllingsbúðina í Hveragerði og Maður í mislitum sokkum sem sýnt var hjá Eyfellingum, en ekki náðist næg þátttaka á þær sýningar. Í janúar var farið á Vínartónleika í Hörpu. Félagið fékk 52 miða. Leikritið Níu líf Bubba verður 2. júní, 39 manns eru skráðir á þá sýningu. Svala kom með leiðbeiningar til leikhúsnefndarinnar, að kaupa miða með góðum fyrirvara og hafa þá á góðum stað í húsinu.
Fornbókmenntir: Guðmundur Guðmundsson. Fram kom að í nefndinni eru þrír umsjónarmenn. Nú er Guðmundur Stefánsson frá vegna veikinda. Þátttakendur eru 40 – 50 í hópnum. Lesnar þrjár Eyfirðinga- og Þingeyingasögur í vetur og verður farin ferð á söguslóðir 6. - 8. Maí, Björn Teitsson verður leiðsögumaður. Rætt hefur verið um að lesa Laxdælu næsta vetur en ekkert ákveðið. Fornsögulesturinn mun hafa byrjað árið 2000.
Öndvegisbókmenntir: Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Svala Halldórsdóttir. Hátt í 80 manns skráðu sig í hópinn í haust en aðeins hefur kvarnast úr hópnum. Það eru yfirleitt á milli 50 og 60 sem mæta á miðvikudögum í lesturinn. Frjáls tími er einusinni í mánuði. Við höfum fengið tvo góða gesti í heimsókn í frjálsa tímann, Heiðrúnu Dóru Eyvindardóttur bókasafnsfræðing og dr. Dagrúnu Jónsdóttur þjóðfræðing. Bók Steinunnar Jóhannesdóttur Reisubók Guðríðar Símonardóttur var valin til lestrar. Steinunn hefur fallist á að koma til okkar eftir páska og segja okkur frá þessu mikla verkefni sínu og hlökkum við til að hlusta á hana. Í maí verður farið til Vestmannaeyja og slóðir Guðríðar kannaðar þar.
Hörpukórinn: Hörpukórinn hefur haldið uppi öflugu söngstarfi meðal eldra fólks hér í Árborg í 34 ár og æfir vikulega, frá október og fram í maí. Stefán Þorleifsson er söngstjóri og undirleikari kórsins. Hörpukórinn syngur jafnan við nokkra viðburði á ári, svo sem: Á árshátíð Félags eldri borgara á Selfossi, á aðventuhátíð, á uppstigningadegi í Selfosskirkju. Einnig er Hörpukórinn í samstarfi við fjóra aðra kóra hér á suðvesturlandi og hittast kórarnir á hverju ári. Kórfélagar eru um 50 í dag.
Leiklestrarhópur: Magnús J. Magnússon. Fram kom að hópurinn leiklas atriði á Opnu húsi í maí 2023 og var því vel tekið. Einnig kom leiklestrarhópurinnn fram á árshátíð FebSel og aðventukvöldi í desember en þá voru jólasveinavísur lesnar með tilþrifum. Þessi öflugi hópur sem er 14 – 16 manns hafa unnið að verkefni í vetur og16. maí er stefnt á heimsyfirráð. Þau koma saman á mánudögum kl. 13:30 – 14:30. Allir velkomnir í hópinn.
Kínaskák: Guðrún Þóranna Jónsdóttir. Kínaskák hófst í FebSel 2022 – spilaklúbbur var stofnaður haustið 2022 og hefur síðan verið spilað á miðvikudögum frá 13:30 – 15:30. Í upphafi var spilað á tveim til þrem borðum. 10 til 14 þátttakendur. Smám saman hefur fjölgað í hópnum og nú eru að jafnaði 25 – 30 manns sem mæta og eru 4 – 5 spilarar við hvert borð. Klúbburinn fékk nafn á dögunum og heitir Jóker. Umsjónarmenn Jóker eru Ástríður G. Daníelsdóttir, Hjördís Þorsteinsdóttir og María Kristófersdóttir.
Kjörnefnd: Guðfinna, vinnan fyrir aðalfund gekk vel. Guðfinna er hætt í nefndinni og Elsa Helga Sveinsdóttir kom ný inn.

Fundi slitið kl. 10:45


____________________________ ____________________________
Guðrún Þóranna Jónsdóttir Magnús J. Magnússon
ritari formaður