Fundargerð 4.6.4.2021

 

Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi. 

Fjórði fundur stjórnar FEB á Selfossi árið 2021, haldinn þriðjudaginn 6. apríl kl. 10:00 í Mörk.   Mætt eru:  Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.  Guðfinna Ólafsdóttir setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna til fundar sem hún stjórnar og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.

Fyrsta mál.  Þorgrímur Óli las fundargerð þriðja fundar 2021.  Fundargerð samþykkt.   

Annað mál.  Guðfinna kynnti erindi Ólafs Rafnars Ólafssonar atvinnu- og viðburðafulltrúa Árborgar þess efnis að Héraðsskjalasafn Árnesinga efni til samstarfsfundar um greiningu á ljósmyndum föstudaginn 23. apríl næstkomandi í salnum í Mörk á milli klukkan 10:00 og 12:00.  Á sama tíma á að kynna nýtt verkefni þar sem óskað er eftir samstarfi við eldri borgara.  Stjórnarmenn sannfærðir um að margt eldra fólk muni geta borið kennsl á fólk og viðburði á ljósmyndum sem vantar upplýsingar um.  Ljóst að tímasetning atburðarins byggist á gildandi sóttvarnareglum stjórnvalda.

Þriðja mál.  Aðstoð við eldri borgara.  Guðfinna skýrði frá því að til hennar hafi leitað kona sem nýverið missti eiginmann sinn og ekkjan vissi ekki hvert ætti að leita vegna fjármála, trygginga og ýmsra annara hluta.  Umræður áttu sér stað þar sem bent var á að útfarastofur veiti upplýsingar og aðstoð sem og lögmenn en greiða þurfi fyrir slíka þjónustu.  Hugmynd kom fram um að ræða við Heiðu Ösp deildarstjóra og kanna hvort félagsþjónustan biði þjónustu af þessu tagi og ef ekki þá að skora á sveitarfélagið að bjóða upp á að fólk í þessari stöðu geti fengið viðtal við starfsmann félagsþjónustu sem leiði viðkomandi í gegnum það sem máli skipti í þessum efnum.  Guðfinna ætlar að nefna þetta við Heiðu Ösp. 

Fjórða mál.  Fundur um nýtingu húsnæðis.  Rætt um fyrirhugaðan fund um nýtingu húsnæðisins í Grænumörk og þarfagreiningar vegna starfsemi FEB fyrir næstu fimm ár sem er framkomið að ósk félagsþjónustunar.  Heiða Ösp hafði gefið upp tvær dagsetningar í apríl sem starfsfólk félagsþjónustunar er reiðubúið að fara yfir húsnæðið og ræða möguleika á að ná fram betri nýtingu á húsnæðinu fyrir félagsstarfið og starfsemi félagsþjónustunar.  Stjórnin sammála um að velja síðari dagsetninguna sem er 22. apríl sem er sumardagurinn fyrsti.  Guðfinna ræðir við Heiðu Ösp hvort hún sé með aðra dagsetningu í huga.  Stefnt á að öll stjórnin mæti á staðinn.  Stjórn FEB Selfossi fundaði um þessi mál 29. mars síðastliðinn og skoðaði möguleika á breytingum á húsnæðinu.  Fyrsta niðurstaða var að ekki væri ráðleggt að hreyfa við aðstöðu snókerspilara, leirmunagerðarfólks og þeirra sem stunda glervinnslu.  Lagt var til að koma fyrir tveimur skákborðum í skot á gangi á milli skrifstofu FEB og íbúðahluta.  Varðandi skrifstofu var lögð áhersla á að hún sé núna á góðum stað og ekki sé boðlegt að FEB nýti hana með annari starfsemi félagsþjónustu.  Áréttað að koma þurfi þar upp tölvutengingu sem fyrst. 

Fimmta mál.  Niðurfelling félagsgjalda.  Guðfinna reifaði hugmynd um að fella niður félagsgjöld þeirra sem eru 90 ára og eldri.  Allir sammála um að það sé sanngjarnt.  Ákveðið að leita til lögfróðra um hugmynd að orðalagi á lagabreytingu þar um sem lögð verður  fyrir aðalfund. 

Sjötta mál.  Virkni og vellíðan.  Guðfinna sagði af fundi á vegum Árborgar um verkefnið heilsueflandi samfélags, „Virkni og vellíðan“, sem miðar að því að skapa aðstæður til að eldri borgarar og aðrir geti viðhaldið heilbrigðum lifnaðarháttum með réttu mataræði, hreyfingu, geðrækt og almennum lífsgæðum.  Árborg hefur innleitt heilsueflandi samfélag til að ná fram þessum markmiðum.

Sjöunda mál.  Fjármál FEB Selfossi.  Guðrún gjaldkeri sagði fjármál félagsins á mjög góðum stað.  Umræður áttu sér stað um að nýta hluta peningainneignar  meðal annars til að fá listafólk í opið hús.  Engar ákvarðanir teknar um þetta á þessum fundi. 

Áttunda mál.  Aðalfundur 2021.  Ákvörðun um hvenær skuli boða til aðalfundar ekki tekin því ekki er fyrirsjáanlegt hvenær stjórnvöld aflétta sóttvarnareglum sem nú gilda um takmarkanir fjölda á samkomum. 

Fundi slitið klukkan 11:15.  Boðað verður til næsta fundar með tölvupósti.  

 

 

______________________________                                    _____________________________

Guðfinna Ólafsdóttir                                                               Þorgrímur Óli Sigurðsson

formaður                                                                                ritari