Fundargerð 7.1.2020

Fyrsti fundur stjórnar FEB Selfossi 2020, haldinn þriðjudaginn 7. janúar kl. 09:00 að Grænumörk 5, Selfossi.
Mætt: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Gunnar E. Þórðarson varamenn
Guðfinna Ólafsdóttir stjórnar fundi og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.
Formaður setti fund og bauð stjórn velkomna til níunda stjórnarfundar FEB Selfossi. Áður en gengið var til dagskrár undirrituðu stjórnarmenn umsókn um netbanka, annars vegar vegna reiknings á vegum ferðanefndar FEB og hins vegar reiknings vegna Öndvegisbókaklúbbs sem hvoru tveggja eru í umboði Sigríðar Guðmundsdóttur (Sirrýjar). Að því loknu var gengið til dagskrár.


Fyrsta mál: Þorgrímur Óli las upp fundargerð síðasta fundar. Hún samþykkt.


Annað mál: Litið yfir farinn veg. Guðfinna lagði fram lista yfir mál sem stjórn FEB hefur tekið til umfjöllunar frá síðasta aðalfundi, afdrif þeirra og stöðu í dag. Farið yfir mönnun stjórnar og nefnda vegna þeirra sem eiga að ganga út samanber lög félagsins. Minnt á orð Braga Bjarnasonar menningarfulltrúa Árborgar sem gaf það ráð að leggja fram óskalista um nauðsynleg verkefni í þágu eldri borgara. Samþykkt að æskilegt sé að bera slíkar óskir upp í Öldungaráði Árborgar og Guðrún Þóranna fulltrúi stjórnar FEB í ráðinu geri það. Guðfinna taldi að líklega eigi tómstundafulltrúar Árborgar meðal annars að sinna þörfum félagsins og mun hún kanna það mál. Guðrún Guðnadóttir greindi frá því að tilfinnanlega vanti nettengingu á skrifstofuna. Hún mun leita leiða til að koma því í lag. Umræður urðu um bankaviðskipti félagsins varðandi bankareikninga og þjónustu sem fengin er þar. Félagið er nú í viðskiptum við Arion banka. Guðrúnu gjaldkera falið að ræða við fulltrúa banka og skoða hvað best sé að gera í þeim efnum. Vegna stærðar og umfangs félagsins telur gjaldkeri óhjákvæmilegt annað en að fela bankanum að innheimta félagsgjöld í gegnum heimabanka eða með útsendingu greiðsluseðla. Stjórnin sammála um að Guðrún komi þessu í ferli. Guðrún mun taka saman kostnað vegna námskeiða og leggja fyrir næsta stjórnarfund. Guðfinna lagði til að ráðinn verði endurskoðandi til aðstoðar við frágang reikninga og bókhalds. Samþykkt að Guðfinna ræði við Hlöðver Örn Rafnsson. Guðfinna upplýsti að nú sé heimasíðan í sjónmáli og nauðsynlegt að finna einhvern til að hafa umsjón með henni. Stjórnarmenn ætla að hugsa hvort þeim komi einhver í hug sem væri tilbúin til þess.


Þriðja mál. Áskorun til bæjarstjórnar Árborgar um bætt umferðaröryggi gangandi vegfarenda á Austurvegi á Selfossi. Eftir umræður og breytingar á drögum að áskorun, sem lögð var fram á síðasta fundi, var ákveðið að stjórnin beri hana upp á næsta aðalfundi félagsins.


Fjórða mál. Aðalfundur 2020. Guðfinna greindi frá því að Ólafía Ingólfsdóttir verði fundarstjóri og Esther Óskarsdóttir ritari. Huga þarf að því að finna varafundarstjóra og –ritara. Guðrúnu Guðnadóttur ætlar að taka saman fjárhagsstöðu félagsins og leggja fyrir á næsta stjórnarfundi og þá mun stjórnin taka afstöðu til þess hvort hún muni, á aðalfundi 2020, leggja til breytingu á árgjaldi. Rædd var hugmynd um hvort eigi að breyta nafni og hlutverki leikhúsnefndar í að vera menninganefnd og sæi um framboð á ýmiss konar menningarviðburðum. Stjórnarmenn sammála að leggja til þessa breytingu.


Fimmta mál. Öldungaráð. Guðrún Þóranna fulltrúi FEB í Öldungaráði sat fyrsta fund ráðsins og skýrði frá hverjir sætu í ráðinu hvað þar var fjallað um sem voru ýmis hagsmunamál auk þess sem veittar voru upplýsingar um það sem sveitarfélagið hefur og er að gera í málefnum eldri borgara. Nefndi sem dæmi umræðu um hraðbanka, sem ekki eru til staðar á Eyrarbakka eða Stokkseyri, og samskipti eldri borgara í þéttbýlisstöðum sveitarfélagsins. Hugmyndin mun vera að kalla ráðið saman ársfjórðungslega. Vegna þess að margt var til umræðu á fyrsta fundi ráðsins var ákveðið að næsti fundur verði 23. janúar n.k.


Sjötta mál. Samstarf við eldri borgara á Eyrarbakka og Stokkseyri. Guðfinna lagði til að skoða samstarf við eldri borgara á þessum stöðum. Vel tekið í þetta og Anna Þóra lagði til að Guðrún Þóranna taki það mál upp á næsta fundi öldungaráðsins. Það var samþykkt og niðurstaða um það lögð fyrir og rædd á næsta stjórnarfundi FEB.


Sjöunda mál. Önnur mál.
a. Umræður áttu sér stað um búnað í salnum í Mörk. Þar er komin ein borðeyja á hjólum. Gólfmerkingar vegna boccia eru ekki komnar og ekki heldur merkingar á glerskilrúm. Bæta þarf úr gæðum og næmi hljóðnema. Leggja verður áherslu á að hljóðkerfi og skjáir virki fullkomlega áður en aðalfundur LEB verður haldinn í apríl.
b. Anna Þóra spurði hvort FEB á Selfossi eigi að sjá um næstu sameiginlegu vorhátíð félaganna á Selfossi og í Hveragerði sem skiptast á um að halda hana. Guðfinna sagði svo vera. Anna Þóra lagði áherslu á að skipulag liggi fyrir um vorhátíðina sem hún leggur til að verði 14. maí. Guðfinna mun skoða það sem að vorhátíðinni snýr. Gunnþór gat þess að fimmkóramót verði hér 9. maí.
c. Guðrún Þóranna kvað skipta máli að koma fram með eitthvað skemmtilegt í tilefni af afmæli félagsins í ár. Fundarmenn tóku undir þetta og rætt var um að halda upp á afmælið í september og vera með kaffiveitingar, skemmtidagskrá með söng, leik og ýmsu sem hugurinn býður fram.
d. Rætt var um að rétt væri að láta gestabók liggja frammi á áberandi stað í opnu húsi svo að þeir sem þar koma geti skrifað nafn sitt. Guðrún gjaldkeri kaupir gestabók fyrir 16. janúar n.k. þegar opið hús hefst að nýju.
e. Guðfinna boðaði til næsta fundar 4. febrúar 2020 klukkan 09:00.
Fundi slitið klukkan 12:10

_____________________________                                                                     ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                             Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                             ritari