Fundargerð 3.12.2019

Áttundi fundur stjórnar FEB Selfossi haldinn þriðjudaginn 3. desember 2019 kl. 09:00 að Grænumörk 5, Selfossi.
Mætt: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Gunnar E. Þórðarson varamenn
Formaður setti fund og bauð stjórn velkomna til áttunda stjórnarfundar FEB Selfossi.


Fyrsta mál: Þorgrímur Óli las upp fundargerð síðasta fundar. Hún samþykkt.


Annað mál: Guðfinna sagðist hafa verið að finna postulínsnámskeiði pláss í Grænumörk og niðurstaðan orðið sú að postulínið verður í sama rými og leirnámskeiðið. Ekki liggur fyrir hve mörg postulínsnámskeiðin verða en gætu orðið þrjú en áætlað að þau hefjist í janúar n.k. Silfurnámskeið hefst í janúar n.k. Guðrún Guðnadóttir greindi frá konu, Ragnhildi Vilhjálmsdóttur, sem boðist hefur til að standa fyrir perlunámskeiði. Stjórnin ákvað að taka boðinu og kynna það. Guðfinna tekur að sér að ræða við Ragnhildi. Áætlað að námskeiðið hefjist eftir áramót ef næg þátttaka fæst. Greindi einnig frá því að margir hafi sýnt enskunámskeiði áhuga og það verður stefnt á það og að líkindum spænskunámskeið.


Þriðja mál. Framhald námskeiða. Guðfinna upplýsti að Bryndís Guðmundsdóttir muni halda áfram sínum námskeiðum sem hafa notið vinsælda og ánægju. Þátttaka hefur verið það góð að Bryndís hefur ákveðið að lækka verð.


Fjórða mál. Landssamband eldri borgara, LEB. Guðfinna sagði frá því að hún hafi boðið LEB að halda landsfund 2020 í Mörk og að boðið hafi verið þegið. Hún sagði að stefnt væri á landsfundinn 22. apríl n.k. Í ljós kom að dagsetningin hentar illa vegna opins húss og handverkssýningar sem þá er áætluð á dagskrá. Guðfinnu falið að ræða við forystufólk LEB um að hafa landsfund viku fyrr eða seinna.


Fimmta mál. Önnur mál.
a. Guðfinna leggur fram til undirritunar umboð fyrir Sigríði Guðmundsdóttur til að stofna tvo fyrirtækjareikninga í tengslum við nefndir sem hún situr í. Stjórn samþykkir og formaður og gjaldkeri staðfesta umboð með undirritun.
b. Anna Þóra segir búið að tryggja auglýsingu á handverkssölu í opnu húsi fimmtudaginn 5. desember n.k.
c. Upplýst að á aðventuhátíðinni fimmtudaginn 12. desember n.k., klukkan 14:00 verði tveir kórar, Hörpukórinn og barnakór. Ávarp mun flytja séra Haraldur M. Kristjánsson í Vík. Anna Þóra lagði áherslu á að tryggja að í auglýsingu verði getið tímasetningar um upphaf hátíðarinnar, þ.e.a.s., að hún hefjist klukkan 14:00.
d. Guðfinna leggur fram til kynningar áskorun til bæjarstjórnar Árborgar um umbætur í umferðarmálum á Austurvegi á Selfossi til aukins öryggis gangandi vegfaranda. Ákvörðun tekin um að stjórnarmenn fari yfir áskorunarskjalið þannig að hægt verði að taka afstöðu til fullmótaðarar áskorunar á næsta stjórnarfundi.
e. Anna Þóra leggur fram fyrirspurn um með hvaða hætti eigi að halda upp á 40 ára afmæli félagsins þann 25. september á næsta ári. Taldi nauðsynlegt að huga að því í tíma. Umræður fóru fram um þetta atriði og ýmsar hugmyndir settar fram. Eins og til dæmis að tengja ákveðna atburði við afmælið svo sem landsfundi LEB, bjóða félögum í afmæliskaffi á afmælisdaginn. Fram kom að Hörpukórinn á 30 ára afmæli sama dag og spurning hvort vilji væri til að tengja það saman. Áætlun er ekki til staðar. Ákveðið að stjórnarmenn leggist undir feld, móti hugmyndir sem verði hægt að fara yfir strax í byrjun næsta árs.
f. Rætt um að sveitarfélagið komi á fundi varðandi málefni fólks 60 ára plús, nokkurs konar þjóðfundarform. Slíkt gæti orðið til að ná betur til þessa hóps ef vel tekst til.
g. Umræða um símamál félagsins. Koma þarf símanúmeri félagsins og stjórnamanna á framfæri á „facebook“ og væntanlegri heimasíðu. Auk þess að koma á símsvara og eða talhólfi þannig að fólk geti fengið upplýsingar eða komið einhverju á framfæri sem því liggur á hjarta.
h. Þorgrímur Óli lagði áherslu á að sjónvarpsskjáirnir tveir í Mörk séu samtengdir líkt og hátalarakerfið er nú þegar. Þetta er brýnt svo að hægt sé að fylgjast með úr báðum sölunum þegar fjölmennt er á viðburðum svo allir eigi möguleika á að sjá þann eða þá sem eru að flytja erindi eða hvað eina sem er í boði. Gunnþór ætlar að ræða þetta við Sigurð Jónsson tæknimann hjá Rafseli. Mikilvægt að þetta verði komið í gagnið fyrir landsfund LEB í vor.
i. Guðrún Þóranna gat þess að Sigrún Magnúsdóttir þjóðfræðingur og fyrrverandi umhverfisráðherra hafi boðist til að koma á Selfoss og flytja, ótilgreint, erindi ef áhugi væri fyrir því. Anna Þóra skoðar það að fá Sigrúnu í opið hús.
j. Umræður um hvenær hefja á starfsemi á nýju ári. Rétt að umsjónarmenn námskeiða stýri því hver fyrir sitt námskeið. Að öðru leyti hefjist starfsemi með og á hefðbundnum tíma.
k. Guðrún Þóranna telur eðlilegt að um áramót verði kaflaskipti á námskeiðum þannig að litið sé svo á að ný önn hefjist og nýtt fólk eigi að geta komið inn í hópinn. Undir það var tekið.
l. Guðfinna boðaði til næsta fundar klukkan 09:00 þriðjudaginn 7. janúar 2020.

Fundi slitið klukkan 11:54

_____________________________                                                                     ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                             Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                             ritari