Fundargerð 19.3.2019


Annar fundur stjórnar FEB Selfossi haldinn þriðjudaginn 19. mars 2019 kl. 10:00 að Grænumörk 5, Selfossi.
Mætt: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi og varamenn Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Gunnar E. Þórðarson.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til stjórnarfundar FEB Selfossi.


Fyrsta mál. Ritari las upp fundargerð síðasta fundar. Hún samþykkt.


Annað mál. Heilsueflandi bær. Formaður bauð velkominn, gest fundarins, Braga Bjarnason menningarfulltrúa Árborgar. Bragi kynnti og skýrði frá því hvað sveitarfélagið er að gera í lýðheilsumálum íbúa sveitarfélagsins, ungum sem öldnum og öllum þar á milli. Um er að ræða langhlaup, viðamikið verkefni sem verður unnið í samráði við alla hagsmunaaðila. Nýlega var stofnaður stýrihópur sem í er fólk úr ýmsum áttum með mismunandi sjónarmið. Verkefnið er opið fyrir öllum hugmyndum sem á endanum verða sameinaðar í heildarverkefni. Bragi hvatti stjórnina til að koma að málinu og gaf það ráð að setja óskir og þarfir eldri borgara á blað og leggja fyrir bæjaryfirvöld óskalista eða stefnuskrá og þá jafnvel forgangsraða verkefnunum. Bragi kallaði eftir frábærum samskiptum við eldri borgara og sagði enga hugmynd slæma sem ekki mætti taka til umfjöllunar og ræða til lausnar.
Bragi svaraði fyrirspurnum nefndarfólks um meðal annars aðstöðu á sýslumannstúni. Hann sagði til skoðunar að koma upp íþrótta- og púttvelli þar. Stjórnarmenn lýstu ánægju með það brýna mál. Aðspurður um næsta tengilið við stjórn FEB taldi hann vera deildarstjóra félagsþjónustu Guðlaugu Jónu Hilmarsdóttur. Varðandi nýja salinn í félagsmiðstöðinni var Braga bent á að í ljós hefði komið að notagildi hans hafi verið takmarkað með því að leyfa ekki uppsetningu íþróttatækja í öðrum salnum á þeim forsendum að því gæti fylgt slysahætta þar sem tækin væru ekki undir eftirliti og vegna fyrirhugaðrar útleigu salarins til almennings. Að loknu erindi og svörum Braga var farið í vettvangsskoðun um hina nýju aðstöðu eldri borgara. Formaður og stjórnarmenn þökkuðu Braga komuna og fyrir fróðlega yfirferð um það sem er í deiglunni í lýðheilsumálum íbúa Árborgar.


Þriðja mál. Guðfinna greindi frá fundi sínum með deildarstjóra félagsmálasviðs, Guðlaugar Jónu, og Esterar Halldórsdóttur iðjuþjálfara og umsjónarmanns í Grænumörk. Guðfinna lagði fram minnislista frá þeim fundi og fór yfir þau atriði sem þar komu fram.


Fjórða mál. Guðfinna upplýsti um stöðu húsnæðisins í Grænumörk, nýja salinn og skrifstofu félagsins. Búist við að hreyfing komist á skrifstofuna í næstu viku.
Anna Þóra sagðist hafa efasemdir um að ekki verði hægt að hafa eins og tvö eða þrjú íþróttatæki í salnum í Mörk. Þar væri æskilegt að setja upp rimla á vegg svo mögulegt sé að gera teygjuæfingar og fleira. Einnig mikilvægt að merkja gólf fyrir Boccia sem hentar svo vel sem einstaklings- og liðsíþrótt meðal eldri borgara.


Fimmta mál. Umræða um Vor í Árborg sem verður dagana 25. til 28. apríl. Framlag FEB til „Vors í Árborg“ verður handverkssýning í Grænumörk 5 á milli klukkan 13 og 16 þessa daga og samtímis verði til sölu kaffi og vöfflur í Mörkinni. Formaður gerir ráð fyrir að sýnendur sitji yfir meðan sýning stendur. Gert ráð fyrir að þeir í stjórninni, sem tök hafa á, muni leggja hönd á plóg.


Sjötta mál. Opið hús og breytingar frá og með komandi hausti. Guðfinna greindi frá því að æskilegt væri að fá iðjuþjálfa, t.d. Ester Halldórsdóttur, til að fræða félagsmenn um ýmislegt sem snýr að iðjuþjálfun.
Rætt um að í haust verði kannað með að tengja æfingar 65+ við heilsufarsmælingar með aðkomu HSU. Guðfinna upplýsti að bæjaryfirvöld hafi tekið jákvætt í að bjóða uppá heitan mat í Grænumörk og að fyrirhugað sé að leita tilboða hjá fyrirtækjum er slíka þjónustu veita. Einnig greindi Guðfinna frá ferð Guðlaugar Jónu á Akranes sem kynnti sér hlutverk öldungaráðs sem þar hefur verið komið á fót.
Gjaldkeri, Guðrún Guðnadóttir, varpaði fram hugmynd hvort ekki væri skynsamlegra í opnu húsi að bjóða uppá að fólk afgreiði sig sjálft með meðlæti frekar en að skammta á diska fyrir hvern og einn. Vel tekið í hugmyndina. Þá ræddi hún um að óljóst væri hver borgaði fyrir kaffi og meðlæti sem boðið er uppá daglega í gamla salnum. Eðlilegt talið að þetta verði kannað svo það liggi ljóst fyrir hvar útgjöldin lenda.


Sjöunda mál. Líkamsrækt fyrir eldri borgara í samstarfi við World Class og Hsu. Guðfinna segir málið í vinnslu og áætlað að koma að þessu máli næsta haust.


Áttunda mál. Önnur mál.
a) Guðrún Þóranna með fyrirspurn hvort Hörpukórinn þurfi að greiða fyrir að vera í stóra salnum í Mörk. Guðfinna sagði að fara verði yfir atriði varðandi afnot af salnum og kostnað því tengdu. Taldi rétt að kanna með að fá Guðlaugu Jónu á næsta fund í þessu sambandi.

b) Anna Þóra benti á að hafa þurfi í huga vetrarlok þann 16. maí. Þegar eldri borgarar frá Hafnarfirði koma í heimsókn. Þá þarf að vera með veitingar og skemmtiatriði. Hugmynd um að fá Hörpukórinn og Bjarna Harðarson til að leggja eitthvað til.

c) Guðfinna lagði fram bréf, dagsettu 8.3.2019, frá bæjarráði Árborgar þess efnis að þakkað er fyrir áskorun aðalfundar FEB í febrúar um að flýta byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Selfossi og vonum bæjarráðs um að ekki verði frekari seinkun verkefnisins en þegar er orðin.

d) Guðfinna kynnti tilboð frá fyrirtækinu 1984 um hýsingu og gerð heimasíðu, Wordpress, árgjald er 15.398.00 krónur. Samþykkt að taka tilboðinu og Guðfinnu falið að ganga til samninga við 1984.

e) Guðfinna greinir frá því að hún sé komin með kjörbréf vegna landsfundar LEB.

f) Anna Þóra sagði venju að á vordögum færu stjórnarmenn og makar, sitjandi og fráfarandi, stjórnar og héldu sér samsæti á eigin kostnað. Tekið jákvætt í að fara út að borða á einhverjum góðum veitingastað.

g) Þorgrímur Óli sagði að Jósefína Friðriksdóttir muni koma inn í ferðanefndina í stað Guðrúnar Helgu sem hefur lokið þriggja ára setu. Kynna þarf ferðir sumarsins á næstunni.

h) Gunnþór með fyrirspurn um hvort kannað hafi verið með hjartastuðtæki í Grænumörk 5. Formaður upplýsti að það væri í vinnslu og boðaði að á næstu dögum hyggðist hún senda bæjarráði bréf þess efnis.

i) Anna Þóra fékk það verkefni að finna einhvern til að taka að sér setu í Viðburðastjórn í tengslum við opið hús í Mörkinni.
Fleira ekki tekið fyrir og formaður sleit fundi klukkan 12:15.

________________________                                                                      ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                     Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                     ritari