Fundargerð aðalfundar FEBSEL 2022.

. Published on .

 

Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi  fimmtudaginn 24. mars 2022 kl. 14:00 í Mörk Austurvegi 51

 

Fundargerð 

 

  1. Fundarsetning: Formaður Þorgrímur Óli Sigurðsson býður fundarfólk velkomið og  byrjar á að kanna lögmæti fundarins, en í lögum félagsins er kveðið á um að aðalfund skuli halda fyrir febrúarlok, en vegna sóttvarnartakmarkana náðist það ekki. Engar athugasemdir gerðar við fundartíma.  Því næst setur formaður fund, og gerir tillögu um að Guðfinna Ólafsdóttir verði fundarstjóri og að ritarar verði Jóna S. Sigurbjartsdóttir og Örlygur Karlsson. Það samþykkt samhljóða og þau taka til starfa.

 

  1. Skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið ár. Formaður, Þorgrímur Óli Sigurðsson, flytur skýrslu stjórnar um starfsemi ársins 2021 og skýrslur nefnda.

 

Vonin og gleðin eru systur.  Við eigum von, já við vonum að héðan í frá verði friður fyrir Covid 19 þó að við taki annar ófriður sem mun áreiðanlega hafa áhrif á okkar líf.  Úr því skulum við vinna eftir því sem þörf krefur.  Gleðinni munum við ekki gleyma og munum hafa gaman saman við leik og störf sem við sjálf munum stilla upp. 

Ýmislegt fór á annan veg en til stóð og starfið riðlaðist.  Hlé varð að gera á viðburðum og námskeiðum þegar Covid 19 bylgjurnar gengu yfir.  Árshátíð var slegin af sem og aðventuhátíð og einhverjar sumarferðir. 

Á síðasta ári tókst ekki að koma aðalfundi félagsins á fyrr en 3. júní en þá varð breyting á stjórn.  Guðfinna Ólafsdóttir gaf ekki kost á sér í formannskjör og var undirritaður kosinn í hennar stað.  Guðrún Þóranna Jónsdóttir sem hafði verið varamaður kom inn sem aðalmaður og Valdimar Bragason kom inn sem varamaður. 

Félögum í félaginu fjölgaði um 43 á síðasta ári.  Í lok árs 2021 voru skráðir félagar 810, 71 komu nýir inn, 13 sögðu sig úr félaginu.  Fimmtán félagar létust á árinu 2021.  Ég bið ykkur að minnast þeirra með því að rísa úr sætum.

Stjórnin vann hörðum höndum að skipuleggja vetrarstarfið sem fólst í því að finna fólk til að stýra viðburðum, námskeiðum og setja saman stundaskrá.  Á vegum félagsins hefur verið boðið uppá nærri 30 viðburði og þar af eru 11 sem snúa að hreyfingu.  Einhver námskeið hafa fallið niður, má þar nefna tréskurð, sem ekki náðist næg þátttaka í.  Nýung er svo vinnsla með blaðapappír sem nefnt var Pappír pappír.  Leitað var eftir því við skólastjóra grunnskólanna um að fá afnot af smíðastofum skólanna fyrir tréskurðarnámskeið.  Okkur var vel tekið og boðið að vera í Vallaskóla en ekki varð af því að sinni.  Það gæti bara vel verið að við gætum komið einhverju öðru fyrir þar.

Síðastliðið sumar stóð sveitarfélagið í samvinnu við félagið að fimm útiviðburðum sem tengdust verkefninu “að sporna gegn félagslegri einangrun eldra fólks” sem var styrkt af félagsmálaráðuneytinu.  Einn daginn var gengið um Stokkseyri, annan dag á Eyrarbakka svo um fuglafriðunarsvæðið við ósa Ölfusár, um nýja miðbæinn á Selfossi og stóð fyrir ratleik í Hellisskógi.  Í október efndi félagsþjónustan til málþings í Hótel Selfossi um málefni eldra fólks í þjóðfundarformi.  Vel tókst til en færri sóttu þingið en vonir stóðu til en þar hafði Covid örugglega áhrif.  Þátttakendur nótuðu það sem þeir töldu að gera þyrfti til að bæta stöðu eldra fólks.  Félagsþjónustan mun taka það saman og birta niðurstöðu að því loknu. 

Fyrir Alþingiskosningarnar var öllum framboðum boðið að koma í Grænumörk til að kynna sínar stefnur og ræða við eldri borgara.  Öll framboð nema eitt þáðu þetta og komu hver í sínu lagi.  Um leið var tækifærið notað að kynna fyrir þeim fimm áhersluatriði eldra fólks sem Landssambandið fór fyrir undir fororðinu “Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf”. 

Öldungaráð er samráðsvettvangur þar sem á að fjalla um þjónustu við aldraða, þróun og framkvæmd öldrunarmála.  Þetta er milliliðalaus leið okkar að kjörnum fulltrúum í bæjarstjórn til að koma hagsmunamálum okkar á framfæri á efsta stjórnsýslustigi sveitarfélagsins.  Samkvæmt lögum um málefni aldraðra skulu í ráðinu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara auk eins fulltrúa frá heilsugæslunni.  Okkar fulltrúi er Guðrún Þóranna Jónsdóttir sem hefur verið ötul að koma öldungaráði í þá virkni sem því ber að vera til að þjóna mikilvægum tilgangi sínum.  Fundir ráðsins ættu að lágmarki að vera ársfjórðungslega en árin 2019 og 2020 var boðað til eins fundar hvort ár sem er langt frá markmiðinu um fjóra fundi á ári.  Fyrir ötula baráttu Guðrúnar var boðað til þriggja funda 2021.  Við erum að ná eyrum ráðamanna sveitarfélagsins um mikilvægi öldungaráðs um að úrbóta er þörf.  Þetta er eitt af þeim áherslumálum sem stjórnin mun halda að frambjóðendum sem sækjast eftir sæti í bæjarstjórn í kosningum í vor.

Í febrúar 2019 kom Anna Þóra Einarsdóttir með tillögu á stjórnarfundi FEBSEL um að leggja upp með átak í að auka við lýðheilsu og heilsuhreyfingu fyrir eldra fólk.  Fyrsta skrefið var að skora á sveitarfélagið að bregðast við því og hefjast strax handa.  Stjórnin átti í framhaldi samtal við stjórnendur Árborgar sem tóku erindinu vel og vinna hófst við að skipuleggja heilsuhreyfingu og styrktaræfingar við hæfi.  Í september síðastliðinn var stór stund þegar Berglind Elíasdóttir íþrótta- og heilsufræðingur var ráðin til að taka að sér styrktaræfingar sem fóru, til að byrja með fram ,utandyra á íþróttasvæðinu en þegar nýja Selfosshöllin var nothæf voru æfingarnar fluttar þar inn.  Þátttakan var svo góð, á milli 70 og 80 mættu, að skipta þurfti upp í tvo hópa.  Þar að auki mega allir fara í höllina hvenær sem er á opnunartíma hússins og fá sér göngu sem getur komið sér vel í vondum veðrum einkum að vetri til. 

Breytingar voru gerðar á húsnæðinu í Grænumörk 5 á árinu.  Félagsþjónustan flutti af efri hæðinni niður á jarðhæð.  Skrifstofa félagsins fór upp og eitt rými var gert úr tveimur.  Ólafur Sigurðsson hefur þar komið upp aðstöðu fyrir pílukast svo nú er hægt að koma þar og hitta í mark.  Handavinnuhópur hefur verið að koma saman í þessu rými.  Í Mörk var gerð breyting á innréttingu og þar komin stór uppþvottavél svo nú skapast möguleiki á að bjóða heitan mat í hádegi virka daga og borða á staðnum.  Guðfinna Ólafsdóttir fyrrum formaður barðist fyrir því að gera þetta mögulegt.  Spurst hefur að þetta muni hefjast í næsta mánuði en það hefur ekki verið staðfest en fróðlegt að sjá hvernig muni takast til þegar það verður. Sveitarfélagið hefur þegar pantað borðeyju í salinn eins og sú sem er hér fyrir.   Eins hafa 10 samanbrjótanleg borð verið pöntuð til viðbótar þeim sem eru hér nú þegar. 

FEBSEL hefur fengið Fannar Geir Ólafsson í Kjötbúrinu til að taka að sér kaffiveitingar í Opnu húsi á móti Bjartmari hjá Veisluþjónustu Suðurlands. Í dag njótum við veitinga frá Fannari og hans fólki.  Það er hængur að ekki skuli liggja fyrir hverju sinni hve margt fólk mætir í Opið hús vegna þess að mikið óhagræði er fyrir veitingamennina að ákvarða hvað þarf mikið af veitingum hverju sinni.  Stundum mæta margir og stundum færri.  Á þessu þarf að finna lausn með því að vera með einhvers konar skráningakerfi þannig að fólk láti vita af viðveru sinni innan einhvers skamms tíma fyrir Opna húsið.

Landssamband eldri borgara LEB hefur boðið öllum aðildarfélögum að taka í notkun félaga- og greiðslukerfi þeim að kostnaðarlausu.  Kerfið er þannig byggt upp að fólk sækir um í félagið í gegnum það, skráir sig á námskeið og viðburði og greiðir fyrir í gegnum kerfið sem heitir ABLER.  Ef fólk kemst ekki á viðburð getur það skráð sig út.  Félag eldri borgara í Garðabæ hefur, enn sem komið er, eitt FEB félaga notfært sér ABLER kerfið.  Þar segir fólk að um byltingu hafi verið að ræða þegar það var komið í gang.  Stjórn FEBSEL hefur ákveðið að nýta sér þetta boð og hefur Árborg gefið vilyrði um að aðstoða við að koma því á koppinn. Vonandi getur það gerst á þessu ári.  Í framhaldi af þessu vil ég segja að starfsemi félags með rúmlega 800 félögum er viðamikil.  Ég er þeirrar skoðunar að félagið sé komið á þann stað að ráða starfsmann, í hlutastarf, til að halda utan um þau verkefni sem þarf að sinna og með því væri hægt að sinna betur félaginu.  Það er í mörg horn að líta og ekki öll sýnileg eða í umræðu.  Þetta mun verða ámálgað við stjórnendur sveitarfélagsins í von um góðar undirtektir.

Framundan er að undirbúa starfið fyrir næsta vetur sem vonandi verður fjörugt eftir tvö félagslega erfið ár.  Fljótlega þarf að fara í gegnum nefndarstörfin og ræða við þá sem þar eru við borð um starfið á haust önn.  Í vor verða sveitarstjórnarkosningar.  Stjórn félagsins hefur ákveðið að leggja sig fram við að ná sambandi við öll þau framboð sem bjóða sig fram og kynna fyrir þeim áherslumál eldra fólks sem eru meðal annars að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þess, að auka framboð á félagslegum íbúðum og leiguíbúðum fyrir eldra fólk.  Koma upp litlum íbúðum sem tengjast þjónustu og samveru, öðru nafni lífsgæðakjarna.  Einnig að koma á kröftugu heilsuátaki meðal eldra fólks.  Markmiðin eru að fólk geti búið sem lengst á sínu heimili auk þess að fólki bjóðist að komast í búsetuúrræði sem er á milli heimilis og hjúkrunarheimilis.  Á efri árum á fólk að eiga áhyggjulaust ævikvöld með því að eiga kost á viðeigandi þjónustu.  Leggja áherslu á að öldungaráð starfi eins og lög gera ráð fyrir eins og ég nefndi hér fyrr.  Síðan eru ýmis önnur atriði sem snúa að ýmsum þörfum eins og greiðfærar gönguleiðir, snyrtilegt umhverfi og fleira.

Skýrslur nefnda hjá FEBSEL.

Gönguhópur með rútu undir stjórn Þórunnar Guðnadóttur með liðsinni Ágústu.  Gangan fór vel af stað í haust en truflaðist af Covid og í febrúar var svo komið að aðeins voru 3 sem tóku þátt og hefur ekki verið farið af stað aftur.  Þórunn hefur leitt gönguna í 8 ár og segist komin á leiðarenda og tími að rétta öðrum keflið.  Þórunni þökkuð góð störf.

Fornsögur undir stjórn Örlygs Karlssonar, Guðmundar Stefánssonar og Hannesar Stefánssonar fór af stað í haust með Njálu og hefur lesturinn gengið brösuglega en hart er barist við að ljúka lestrinum í vor.

Leikhúsnefnd var leidd af Sigríði J. Guðmundsdóttur, Erlu Guðmundsdóttur og Svölu Halldórsdóttur og hafa (Erla og Svala) verið frá árinu 2011.  Covid 19 setti mark sitt á leikhúsferðir félagsins starfsárið 2021. Þann 7. október byrjuðum við á  gamanleiknum „Nei ráðherra“ Hjá Leikfélagi Hveragerðis, og í nóvember var það „Beint í æð“ hjá Leikfélagi Selfoss.  Síðan stendur til að skreppa í Þjóðleikhúsið að sjá „Ástu“ á morgun 25. mars.

Ferðanefnd var leidd af Helga Hermannssyni, Ingibjörgu Stefánsdóttur og Sigríði J. Guðmundsdóttur.  Fyrsta ferð sumarsins í lok júní var í Heiðmörkina og Garðabæinn undir leiðsögn Laufeyjar Jóhannsdóttur, sem leiddi okkur af algjörri snilld í gegnum sögu og ævintýri staðanna.  Ferðinni lauk síðan í góðu yfirlæti hjá FEB Garðabæ.

  1. júlí var lagt af stað austur í Fljótshlíð þar sem Lárus Bragason leiðsagði okkur um Njáluslóðir og hádegisverður var snæddur að Hótel Fljótshlíð.

24.ágúst átti nú aldeilis að vera fjör hjá okkur í Vestmannaeyjum, búið að ganga frá skipuleggja og borga rútu og ferju og síðan beðið með eftirvæntingu eftir deginum sem ekki kom eins og til stóð heldur kom Covid 19 og setti stólinn fyrir dyrnar. Haustferðin í boði Guðmundar Tyrfingssonar var að þessu sinni á Þingvöll, þar sem við þáðum kaffiveitingar og fróðleik í Gestastofu sem er staðsett þar sem gengið er niður Almannagjá.

Öndvegisbókaklúbburinn undir stjórn Sigríðar J. Guðmundsdóttur og meðstjórnanda Sigríðar Ólafsdóttur á haustönn og Jónu S.Sigurbjartsdóttur á vorönn.

Í annarri tilraun hófst  lestur Vesturfaranna eftir Böðvar Guðmundsson s.l. haust og nú er greinilegt að hún verður kláruð í vor.  46 byrjuðu lestur í haust en eftir áramót skiluðu sér ekki alveg jafnmargir til baka, útlit fyrir að 32 ljúki lestri seinni partinn í apríl.

Litlu jólunum fagnaði hópurinn með Brunch í Þrastarlundi. Ákveðið hefur verið að fara í heimsókn í Borgarfjörð 18. maí  á heimaslóðir Böðvars Guðmundssonar.

Árshátíðarnefnd var leidd af Guðbjörgu Sigurðardóttur, Halldóri Inga Guðmundssyni, Ólafi Bachmann og Þóru Grétarsdóttur.  Þau voru komin með fullskipulagða dagskrá árshátíðar og allt klárt en því miður varð að slá hana af vegna fjöldatakmarkana á samkomum.  En þau koma með fullu afli í haust með veglega árshátíð það vitum við.  Kannski þarf að fara að panta Selfosshöllina.

Hörpukórinn hefur komið reglulega saman á milli fjöldatakmarkanna og verið vel mætt, yfir 40 manns af 46 sem eru í kórnum.  Í þriðja sinn á jafnmörgum árum stóð til að Hörpukórinn stæði fyrir fimmkóramóti. Ekki gekk það, eftir af sömu ástæðunni, sem var Covid 19  Hugborg Sigurðardóttir tók við formennsku af Gunnþóri Gíslasyni í október og með henni í stjórn eru, Rúnar Hjaltason varaformaður, Kristín Guðmundsdóttir ritari, Katrín Þórarinsdóttir gjaldkeri og Gunnar Ellert Þórðarson meðstjórnandi. Hörpukórinn ætlar að vera með Bingó og kökubasar 8. apríl.n.k. Það verður nánar auglýst síðar.

Íþróttanefnd skipa Gunnar E. Þórðarson, Valdimar Karlsson og Emil Guðjónsson.  Þar, eins og annars staðar, hefur Covid 19 sett mark á starfið og það gengið fremur rólega og færri mætt en í venjulegu árferði. Boccia hefur verið spilað á miðvikudögum í Iðu og á föstudögum í Mörk.  Tvisvar til þrisvar í viku hittist fólk í snóker í Grænumörk.  Til stóð að bjóða uppá ringó en ekki var hægt að fá inni í íþróttahúsi Vallaskóla þar sem það var fullnýtt fyrir annað og ekkert varð af því.  Nær engin mæting hefur verið í pútt í golfskálanum.  Vonir standa til að meiri þátttaka verði í þessum greinum næsta vetur ef Covid líður undir lok. 

Félagsvistarnefnd.  Hjarta, spaði, tígull, lauf eru sagnirnar.  Frá hausti hefur verið spilað með hléum í  takt við Covid takmarkanir.  Í upphafi vetrar sóttu 15 manns félagsvistina og hefur verið að smá fjölga og síðast voru 28.  Þegar fólk gat farið að mæta eftir Covid hlé leyndi sér ekki gleðin við að hittast aftur. Spilað er á þriðjudögum í Mörk.  Í nefndinni eru Hilmar Björnsson, Hrefna Kristinsdóttir, Gunndís Sigurðardóttir og Kristín Stefánsdóttir.

Nú mun Magnús J. Magnússon koma hér upp og skýra frá starfsemi annars vegar leiklesturs sem að hans frumkvæði fór af stað síðastliðið haust og hins vegar, Opnu húsi þar sem Anna Þóra Einarsdóttir og Unnur Halldórsdóttir koma líka við sögu.

Það var eins hjá hópum Magnúsar ekki gekk allt upp sem skipulagt hefur verið vegna Covid 19. Vel hefur gengið að fá fólk til að koma á Opin hús með allt mögulegt, fræðslufyrirlestra og skemmtiefni. 14 frábærir leikarar hafa mætt í leiklesturinn og gengið vel. Lesnir hafa verið nokkrir einþáttungar, en hlé var gert á því öðru hvoru, vegna Covid. Nú er hópurinn farinn að hittast í leikhúsinu við Sigtún og æfa saman verk sem verður sýnt við tækifæri. Framhald verður á þessum leiklesturshópi fram á vor og hann mun halda áfram næsta haust. Skemmtilegt starf og vel sótt af áhugasömu fólki. Magnús benti á að hugsanlega hefðu fleiri skráð sig til leiks, þar sem auglýst var að um leiklestur væri að ræða, ekki uppsetningu á leikriti ! En í dag eru allir sáttir við að vera komnir í leikhúsið við Sigtún.  

Við svo búið vil ég þakka öllu því góða fólki sem hefur lagt hönd á plóg til að halda uppi starfsemi Félags eldri borgara á Selfossi í þeim tilgangi að efla og styrkjafélagslegan og heilsusamlegan þrótt félagsmanna.

Orðið laust um skýrslu stjórnar. Engin hvað sér hljóðs.

 

  1. Endurskoðaðir ársreikningar kynntir og bornir upp til samþykktar. Gjaldkeri, Guðrún Guðnadóttir, kynnir endurskoðaða ársreikninga. Rekstrarreikningur samandreginn. Tekjur alls 4.695.725  Gjöld rekstrarkostnaður  3.872.647. Rekstrarhagnaður ársins:823.056 fært frá fyrra ári 5.104.978 Efnahagsreikn. Eignir: handbært fé 5.928.056. Eigið fé og skuldir alls: 5.928.056

Reikningurinn er undirritaður af skoðunarmönnum

Fundarfólki boðið að ræða ársreikninga, enginn kvað sér hljóðs.   Að því loknu eru þeir bornir upp til samþykktar.

Samþykktir samhljóða.

 

  1. Lagabreytingar. Engar tillögur hafa komið fram um lagabreytingar.

 

  1. Árgjöld félagsmanna ákveðin. Gjaldkeri, Guðrún Guðnadóttir leggur fram eftirfarandi tillögu:

Stjórn félags eldri borgara á Selfossi leggur til að árgjald  árið 2022 verði kr. 3.500 eins og verið hefur undanfarin 2 ár.

Tillagan samþykkt.

 

  1. Kosningar: Kjósa skal hluta stjórnar og varastjórnar sem setið hefur í tvö ár.

Formaður ber upp tillögu kjörnefndar.

 

Samkvæmt 6. grein í lögum Félags eldri borgara.á Selfoss gerir kjörnefnd félagsins eftirfarandi tillögur til aðalfundar 2022 um stjórnarmenn, varamenn í stjórn og skoðunarmenn í samræmi við ákvæði 5. gr. laga félagsins.

  1. Einn meðstjórnandi til 2ja ára í stað Önnu Þóru Einarsdóttur sem hefur lokið þremur kjörtímabilum komi: Ólafía Ingólfsdóttir, Fosstúni 7, Selfossi.
  2. Gjaldkeri til 2ja ára, Guðrún Guðnadóttir gefur kost á sér áfram.
  3. Einn varamaður í stjórn til 2ja ára: Ólafur Sigurðsson hefur setið í eitt kjörtímabil og gefur kost á sér áfram.
  4. Tveir skoðunarmenn til eins árs: Einar Jónsson, Austurvegi 53 og Helgi Helgason, Austurvegi 51 voru kosnir á aðalfundi 2021 og gefa þeir báðir kost á sér áfram

Í kjörnefnd hafa setið auk undirritaðrar (kosin 2021) Guðmunda Auðunsdóttir (kosin 2020) og Sigríður J. Guðmundsdóttir. Sigríður hefur nú lokið sínu kjörtímabili og leggur nefndin til að Helga Guðrún Guðmundsdóttir komi í hennar stað og verði kosin til 3ja ára.

Undir þetta ritar Guðfinna Ólafsdóttir, formaður kjörnefndar.

 

Fundarstjóri ber upp tillögu kjörnefndar og er hún samþykkt samhljóða.

Fulltrúa á þing LEB auk formanns félagsins sem er sjálfkjörinn.  Fjöldi þeirra er samkvæmt lögum LEB hverju sinni.  Leitað er  eftir því að fundurinn samþykki umboð til handa stjórnar FEBSEL um að tilnefna fulltrúa FEBSEL til að sækja landsund LEB sem verður í Hafnarfirði 3. maí 2022.  Það samþykkt.

 

  1. Afgreiðsla ályktana. Stjórn FEBSEL leggur fram eftirfarandi  ályktun til samþykktar til bæjarstjórnar og starfsmanna Árborgar.

Efni: Þakkir og hvatning frá aðalfundi Félags eldri borgara Selfossi „FEBSEL“

Aðalfundur FEBSEL haldinn í Mörk fimmtudaginn 24. mars 2022  þakkar bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar og starfsfólki þess fyrir góð samskipti við félagið og félagsfólk . Einkum og sérstaklega er þakkað fyrir að hafa í framkvæmd ákalli FEBSEL um að sinna heilsueflingu fyrir eldra fólk með því að setja af stað styrktaræfingar undir stjórn fagfólks í hinu glæsilega íþróttahúsi, Selfosshöllinni, sem tekið var í notkun síðast liðið haust. Auk þess er ánægja með að fá aðgang að íþróttahúsinu til göngu utan skipulagðra æfingatíma, þegar veður eru óhagstæð.

Hér er um svo mikilvægt verkefni að ræða, sem hefur góð áhrif á líkama og sál, að FEBSEL hvetur sveitarfélagið Árborg að slá hvergi af og þróa verkefnið áfram öllum til góðs. Fjárfesting í forvörnum fyrir eldra fólk er arðbær og skynsamleg til lengri tíma.

 

Ályktun samþykkt samhljóða.

 

  1. Önnur mál.

Guðrún Guðmundsdóttir tekur til máls, og fer yfir hversu marga greitt er fyrir til LEB. Félagar í FEBSEL eru 810 en ekki er greitt til LEB fyrir félaga sem eru heiðursfélagar, þ.e. 90 ára og eldri en þeir greiða ekki félagsgjald. Það eru 755 sem greitt er fyrir til LEB.

 

Form. tekur til máls og segir að ákveðið hafi verið að skipa  nefnd til að lesa yfir lögin og kanna hvort gera þurfi breytingar á lögunum. Sem kæmu þá til framkvæmda á næsta ári.

Sigríður Guðmundsdóttir bendir á að gera þurfi breytingar varðandi varamenn í stjórn, sem ekki er tekið á í núgildandi lögum. Því varamaður geti setið í stjórn í eitt eða fleiri kjörtímabil. En sé svo kosin í stjórn og þá sé aftur byrjað að telja, svo slíkt geti orsakað misræmi.

 Erla Guðmundsdóttir frá leikfélagsnefndinni. Segir að þær hafi viljað hætta, og héldu að það hefði verið komi til skila.

 Þuríður Jónsdóttir tekur til máls, og bendir á erfitt aðgengi sé fyrir fótgangandi að komast frá Austurvegsíbúðunum í verslanir hinumegin götunnar og eins við sjúkrahúsið, og á fleiri stöðum.

 Form. Þorgrímur Óli segir að ný stjórn muni fara yfir nefndir og breyta ef með þarf, þannig að leikhúsnefndin verði tekin til athugunar.

Varðandi umferðamálin/aðgengismál, þá hefur nefndin sem hann á sæti í  umferðaröryggisnefnd, gert athugsemdir við bæjarstjórn  og bent á margt sem betur má fara og mun gera áfram.

  

  1. Í fundarlok er fráfarandi stjórnarkonu Önnu Þóru Einarsdóttur  afhent kveðjugjöf og blóm, svo og starfsmönnum fundarins.  Formaður slítur fundi.


Fundarritarar: Jóna S.Sigurbjartsdóttir og Örlygur Karlsson