Fundargerð árið 2019

. Published on .

Aðalfundur FEB Selfossi haldinn 21. febrúar 2019 í nýjum húsakynnum félagsins v/ Austurveg.

Fundarsetning.

Formaður Sigríður J. Guðmundsdóttir setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Formaður gerði tillögu um Guðmund Guðmundsson sem fundarstjóra og Sigrúnu Ásgeirsdóttur sem fundarritara. Tillagan var samþykkt og Guðmundur tók við fundarstjórn.

2. Minnst látinna félaga. Sjö félagsmenn létust á árinu. Fundarmenn vottuðu þeim virðingu með því að rísa úr sætum.

3. Fundargerð síðasta aðalfundar. Tillaga um að fella niður lestur síðustu aðalfundargerðar var samþykkt. Vísað var til heimasíðu félagsins þar sem hægt er að lesa eldri aðalfundargerðir.

4. Skýrsla stjórnar. Sigríður J. Guðmundsdóttir formaður flutti skýrslu stjórnar. Í lok árs 2018 voru félagar orðnir 625 og hafði fjölgað um 31 á árinu. Sjö létust og fjórir hættu, einkum vegna brottflutninga af svæðinu. FEB Selfossi stendur fyrir ýmiskonar tómstundastarfi yfir vetrarmánuðina frá september fram í miðjan maí. Stjórnin leggur áherslu á úrval námskeiða og tækifæra til fjölbreyttrar frístunda-starfsemi og aukinnar hreyfingar. Sveitarafélagið Árborg styrkir félagið árlega ásamt því að útvega alla þá aðstöðu sem félagið þarfnast. Á síðasta aðalfundi urðu mannabreytingar í stjórn og vísast til aðalfundargerðar 2018. Eftir síðasta aðalfund 22. febr. 2018 voru sendar tvær ályktanir til Sveitarfélagsins Árborgar varðandi lækkun á fasteignagjöldum aldraðra og beiðni um frístunda-styrk. Ekki hefur fengist endanlegt svar.
Sjö fastanefndir starfa í félaginu auk kjörnefndar. Þær eru: árshátíðarnefnd, dagskrár-og fræðslunefnd, ferðanefnd, félagsvistarefnd, íþróttanefnd, kaffinefnd og leikhúsnefnd.

5. Nánari upplýsingar um starfsemi félagsins og hinna ýmsu klúbba innan þess má finna á heimasíðu félagsins undir liðnum skýrsla stjórnar 2018.

Þorgrímur Óli Sigurðsson sagði frá sumarferðum á vegum félagsins en farnar voru fjórar ferðir ein í mánuði frá júní til september. Farið var á Reykjanes í júní, Kerlingafjöll í júlí, Húsafell í ágúst og í september var farið á sunnanvert Reykjanesið og til Grindavíkur í boði Guðmundar Tyrfingssonar og Sigríðar Benediktsdóttur konu hans. Formaður þakkaði öllum sem hafa komið að starfi félagsins, bæði utanaðkomandi aðilum og nefndafólki, fyrir frábær störf. Sérstakar þakkir fengu Guðmundur Tyrfingsson og kona hans.

6. Ársreikningar. Eysteinn Ó Jónasson gjaldkeri lagði fram og skýrði reikningana og voru niðurstöður eftirfarandi:
Rekstrarreikningur 5.676.000. Þar af tekjur umfram gjöld 528.385.
Efnahagsreikningur 4.093.192. sem er hrein eign því skuldir eru engar. Fundarstjóri gaf kost á fyrirspurnum og umræðum um reikningana. Engar fyrirspurnir komu og voru reikningarnir samþykktir samhljóða.
Árgjald félagsins fyrir árið 2019. Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi haldinn 21. febrúar samþykkir að félagsgjald fyrir árið 2019 verði óbreytt frá fyrra ári kr. 3000.

Kosningar í aðalstjórn, varastjórn, skoðunarmanna og fulltrúa á aðalfund Landssambands eldri borgara.
Sigríður J. Guðmundsdóttir formaður hefur lokið þremur kjörtímabilum.Tillaga kjörnefndar um Guðfinnu Ólafsdóttur í starf formanns samþykkt samhljóða. Eysteinn Ó. Jónasson var kosinn gjaldgjaldkeri á síðasta aðalfundi en biðst undan starfinu af heilsufarsástæðum. Tillaga kjörnefndar um Guðrúnu Guðnadóttur var samþykkt samhljóða. Jósefína Friðríksdóttir hefur lokið sínum þremur kjörtímabilum í stjórn.Tillaga kjörnefndar um Þorgrím Óla Sigurðsson var samþykkt samhljóða. Gunnþór Gíslason gefur kost á sér áfram í stjórn og var hann samþykktur samhljóða. Tillaga kjörnefndar um Guðrúnu Þórönnu Jónsdóttur í varastjórn samþykkt samhljóða.
Kosning skoðunarmanna. Helgi Helgason og Einar Jónsson endurkjörnir samhljóða.
Kjörnefnd: Kjósa á 1 mann í kjörnefnd. Arnheiður Jónsdóttir gaf ekki kost á sér áfram og var tillaga um Sigríði J. Guðmundsdóttur samþykkt samhljóða.
Kosning fulltrúa á aðalfund Landssambands eldri borgara:Tillögur um Önnu Þóru Einarsdóttur og Sigríði J. Guðmundsdóttur sem aðalfulltrúa samþ. samhljóð. Formaður er sjálfkjörinn. Tillaga um varafulltrúa:Fyrsti varamaður Gunnþór Gíslason og annar varamaður Þorgrímur Óli Sigurðsson.Þriðji varamaður Gunnar E: Þórðarson. Samþ.samhljóða.

7. Önnur mál. Eftirfarandi áskorun til heilbrigðisráðuneytis frá Félagi eldri borgara Selfoss.Samþykkt samhljóða á aðalfundi félagsins þann 21. febrúar 2019 „Fjölmennur aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi (FEB), haldinn þann 21. febrúar 2019, skorar á heilbrigðisráðuneytið og Sveitarfélagið Árborg að flýta sem mest byggingu fyrirhugaðs hjúkrunarheimilis á Selfossi. Mikil neyð hefur ríkt hér á svæðinu til fjölda ára og versnaði um helming þegar tvö hjúkrunarheimili voru lögð niður á svæðinu fyrir u.þ.b. tveimur árum. Þetta ástand veldur eldri borgurum mikilli óvissu og vanlíðan, einkum þegar heilsan bilar og hefur veikt fólk neyðst til að vistast um skemmri eða lengri tíma fjarri heimabyggð og ástvinum. Samkvæmt nýjum upplýsingum mun fyrsta skóflustunga að hjúkrunarheimilinu verða tekin í maí í vor og er stefnt að því að heimilið verði tilbúið í lok árs 2020. Þetta eru vissulega góðar fréttir sem við fögnum einlæglega og nú hvetjum við eldri borgarar byggingaraðila til þess að láta áætlanir standast í þessu krefjandi verkefni. Það má engan tíma missa.“ Áskorunin var einnig send til Bæjarstjórnar Árborgar og Öldungaráðs Árborgar.

Sesselja Sólveig Bjarnadóttir, bar fram eftirfarandi tillögu til Félags eldri borgara „Efni: Heitur matur í hádeginuÁgætu félagar! Ég geri það að tillögu minni til stjórnar Félags eldri borgara Selfossi, að hún beiti sér fyrir því við bæjarstjórn Árborgar að boðið verði upp á heitan mat í hádeginu hér í Grænumörk, sambærilegt og eldri borgurum er boðið upp á í öðrum bæjarfélögum. Ef eldhúsið í Grænumörkinni getur ekki annað þessu verkefni að samið verði þá við verktaka til að sinna þessu máli.“ Tillagan samþykkt samhljóða.
Fráfarandi formaður Sigríður las bréf frá Rauða krossinum og Landssambandi eldri borgara um átak í eflingu heimsókna- og símavinaverkefnis.
Guðfinna Ólafsdóttir nýr formaður og fulltrúi í Öldungaráði Árborgar sagði frá því að hún hafi kynnt sér hvernig afslætti á fasteignagjöldum er háttað í öðrum sveitarfélögum. Einnig að hún hafi rætt við félagsmálastjóra Árborgar um möguleika á að hafa heitan mat í hádeginu fyrir eldri borgara sem þess óska og þakkaði Sesselju fyrir að koma með tillögu.

Sigríður formaður sagði frá gjöfum sem félaginu hafa borist á árinu. Styrktaraðilar úti- íþróttatækja gáfu á árinu samtals kr.1.950.000.
Rótary klúbbur Selfoss 50.000
Oddfellow stúka nr 9-Þóra 300.000
Arion banki 150.000
SS 250.000
Set 100.000
LBE 200.000
Kvenfélag Selfoss 250.000
FEB 300.000
Lyfja 150.000
Landsbankinn 150.000

Eysteinn Ó. Jónasson fráfarandi gjaldkeri sagði frá hljóðfærum í húsinu. Píanó sem var í eldri sal hefur verið flutt niður í nýja salinn. Orgel sem nú er komið í eldri salinn (matsalinn) er gjöf frá Sigríði J. Guðmundsdóttur og Jóni Péturssyni. Fundurinn þakkaði þeim Sigríði og Jóni gjöfina.
Sigríður Ólafsdóttir flutti fráfarandi formanni þakkir fyrir góð störf í þágu félagsins. Fyrir hönd kaffinefndar sagði hún að kaffigjald þurfi að hækka. Hún sagði einnig frá því að innkoma af minningarkortum félagsins sé mjög lítil og þurfi að gera þau sýnilegri.

Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi tók til máls og flutti árnaðaróskir til félagsins með nýja húsnæðið og starfið hjá félaginu. Hann þakkaði Sigríði J. Guðmundsdóttur fyrir mjög gott starf fyrir félagið og öðrum sem að því starfi koma. Hann talaði um þörf fyrir framboð á hádegismat fyrir eldri borgara sem gætu hittst og borðað saman og eins fram hafði komið fyrr á fundinum. Kjartan talaði einnig um seinkum á byggingu fyrirhugaðs hjúkrunarheimilis sem varð vegna fjölgunar rúma úr 50 í 60 rúm eftir þrýsting frá stjórnvöldum sveitarfélagsins. Kosið um nafn á nýja húsnæðið sem félagið hefur fengið fyrir starfsemi sína. Flest atkvæði hlaut MÖRK.

Nýkjörinn formaður, Guðfinna Ólafsdóttir, tók til máls og þakkaði það traust sem henni væri sýnt með þessu kjöri. Hún talaði einnig um nýja leikfimisalinn og væntanlega notkun hans. Guðfinna flutti fráfarandi formanni þakkir fyrir vel unnin störf. Á sama hátt Eysteini og Jósefínu sem einnig láta af störfum í stjórn félagsins. Þá kallaði hún fram nýtt stjórnarfólk og eldra til kynningar fyrir fundararmönnum.
Fundarstjóri þakkaði stjórnarmönnum fyrir góð störf og minnti á að hægt væri að greiða árgjald hér frammi. Hann þakkaði fundarmönnum fyrir komuna og þátttöku í fundinum og sleit fundi.

Fundarritari Sigrún Ásgeirsdóttir