Ársskýrsla v/2018

. Published on .

Ársskýrsla FEB Selfossi fyrir árið 2018

Í árslok 2018 voru félagsmenn orðnir 625 og hafði fjölgað um þrjátíu og einn á árinu. 7 félagar létust og 4 hættu, einkum vegna brottflutnings af svæðinu.

FEB Selfossi starfar á félagslega sviðinu með ýmiskonar tómstundastarf yfir vetrarmánuðina eða frá september til miðs maí. Stjórnin leggur áherslu á úrval námskeiða og tækifæra til fjölbreyttrar frístundaiðkunar og hollrar hreyfingar með aðstoð Sveitafélagsins Árborgar sem styrkir félagið með árvissum styrk ásamt þvi að útvega alla þá aðstöðu sem félagið þarf á að halda hverju sinni.

Aðalfundur félagsins 2018 var haldinn 22. febrúar og var fundarstjóri Sigrún Ásgeirsdóttir og fundarritari eins og svo oft áður Helgi Helgason. Guðmundur Guðmundsson hætti sem gjaldkeri og Stefán A. Magnússon gaf ekki lengur kost á sér í varastjórn, en í stjórn félagsins situr enginn lengur en 3 kjörtímabil og varir hvert kjörtímabil 2 ár. Í stað Guðmundar var Eysteinn Ó. Jónasson kosin gjaldkeri og Gunnar þórðarson kosin í varastjórn.

Eftir aðalfundinn voru sendar inn til Sveitafélagsins tvær ályktanir um lækkun á fasteignagjöldum og eins beiðni um frístundastyrk en ekkert svar hefur borst til okkar um þau málefni, en einn fundur var haldinn á árinu hjá Öldungaráði þar sem Guðfinna Ólafsdóttir er okkar fulltrúi og þar hafa þessi málefni eitthvað verið orðuð en ekki verið tekið á þeim.

Mjög góð þátttaka var á allri starfsemi félagsins og ekki síst í opnu húsi sem var vel sótt þrátt fyrir þrengslin sem við bjuggum við en Nýju húsakynnin okkar að Austurvegi 51 sem áttu að afhendast 14 maí 2018 stóðst ekki, svo haldið var áfram með fundi og opið hús, félagsvist, sumba, línudansinn og fleira í gamla salnum í Grænumörkinni.

Sjö fastanefndir starfa í félaginu auk kjörnefndar. Þær eru Árshátíðarnefnd, dagskrár- og fræðslunefnd, ferðanefnd, félagsvistarnefnd, íþróttanefnd, kaffinefnd og leikhúsnefnd. Einn er sá vettvangur sem hefur verið á vegum eldri borgara félagsins en ekki verið nefndur, en það er námskeið fyrir útlendinga sem haldið er i Vallaskóla einu sinni í viku í íslensku og lestri. Tvær stjórnarkonur FEB Selfoss ásamt þremur öðrum eldri borgurum taka þátt í þessu mikilvæga starfi.

Leikhúsnefndin stóð fyrir fjórum leikhúsferðum, Félagið var ekki nógu fljótt að taka við sér vegna forsýningar Vínartónleikana s.l. ár, svo ekkert varð af þeirri ferð en við pössuðum upp á vínartónleikana í ár og verður trúlega sagt frá þeim í næstu ársskýrslu.

Frá því að félagið var stofnað hefur verið staðið fyrir vikulegum gönguferðum yfir veturinn og hafa rútur frá Guðmundi Tyrfingssyni séð um að keyra félaga á góðan stað sem er valinn miðað við færð og veður út fyrir bæinn og fylgir rútan fólkinu í klukkutíma og tekur fólk upp í ef viðkomandi treystir sér ekki lengur. Guðfinna Ólafsdóttir sú ágæta kona tók upp á því að hafa einnig göngur einu sinni í viku innan bæjarmarka Selfoss.

Sumbaæfingar fóru vel af stað undir stjórn ungu og hressu suðuramerísku Maríu sem bætir hressir og kætir. Íþróttanefndin stendur fyrir boccia og púttæfingum yfir vetrarmánuðina og golfi á sumrin. Línudansinn var á sínum stað undir stjórn okkar frábæru línudansara Guðlaugar Jónu og Jóns Þórs. Frékar léleg þátttaka var frá okkar félagi á Landsmót UMFÍ 50+ s.l ár, en ein er sú kona sem mætir alltaf og heldur pönnukökubakstrinum í heiðri en það er hún Helga okkar Guðmundsdóttir.

Á vetrardagskránni voru margir fleiri hefðbundnir liðir s.s. glervinnsla, tréútskurður, handavinna, prjón og föndur, myndlist, nónsöngur svo eitthvað sé nefnt. Þá lásu leshópar fornsögur og öndvegisbókmenntir. Eitt nýtt námskeið fór í gang á haustdögum sem er TÁLGUN og virðist það fara vel af stað.
Í opnu húsi á fimmtudögum stóð Dagskrárnefndin fyrir ýmis konar afþreyingu og Ingimar Pálsson sá um fjöldasöng við upphaf og lok dagskrár en hann hefur ákveðið að hætta í nefndinni eftir aðalfundinn 2019 og eins hefur hún Gugga (Guðbjörg Sigurðardóttir) okkar hætt sem formaður nefndarinnar og Guðrún Guðmundsdóttir hefur einnig lokið störfum í þessari nefnd og þökkum við þeim öllum fyrir frábær störf undanfarin ár. Arndís Ásta Gestsdóttir (Dísa) hefur tekið við stjórninni en tvo meðstjórnendur vantar ennþá með henni og verður tekið á því eftir þennan aðalfund. Kaffinefndin og kaffiteymið sá um flottar kaffiveitingar í opnu húsi eins og alltaf.

Handverkssýningin var ekki á sínum stað þegar Vor í Árborg gekk í garð, en kanski verður henni komið á aftur í náinni framtíð, og ekki tókst að koma upp úti íþróttatækjunum fyrir eldri borgara hér við endann á Grænumörk 5 eins og við höfðum ætlað, en vonandi verður það gert núna með vorinu.

Vorfögnuðurinn var haldinn að þessu sinni í Hótel Selfoss á vegum FEB Selfossi en samvinna hefur verið undanfarin ár með FEB Hveragerði að halda þennan fögnuð annað hvert ár, aldrei hafa jafn margir sótt þessa skemmtun eins og s.l. vor því kaffi drukku um 160 mans.

Vetrarstarfinu lauk með samkomu í Selfosskirkju þar sem félagarnir Helgi Hermannsson og Ólafur Backmann skemmtu okkur með ljúfum tónum og góðum sögum, kaffi veitingar voru síðan í safnaðarheimilinu á vegum Hugrúnar Helgadóttur.

Maí mánuður er loka mánuður vetrarins og hefur myndast hefð hjá sumum deildanna að gera sér glaðan dag í lokin með því að fara út að borða eða í smá ferð til gamans.
Fornsöguhópurinn frestaði júní ferð sinni á söguslóðir Hrafnkelssögu Freysgoða fram í september þar sem Hörpukórinn undir stjórn Guðmundar Eiríkssonar hélt til Írlands á 5 daga kóramót "Limerick Sings" í byrjun júní.
Fjöldi kóra allsstaðar að í heiminum komu þar saman allt frá barnakórum upp í kór eldri borgara frá Selfossi og voru stórir tónleikar alla dagana víðs vegar um stórt svæði Limerick í gömlum stórum kirkjubyggingum sem tónleikahöllum.

Fyrir þá sem ekki vita að þá er Limerick borg staðsett við ána Shannon á suðvestur hluta Írlands. þarna var sungið og leikið ásamt því að fara í skoðunarferðir. Erfitt ferðalag fyrir marga en stórkostleg upplyfun í sól og blíðu alla dagana.

Fornsöguhópurinn helt eins og áður sagði austur um land og kom sá og fræddist um marga áhugaverða staði bæði á austur og norðurlandi flottir fararstjórar þau Örlygur, Guðmunda og Jósefína stjórnuðu hópnum og fræddu jafnóðum og keyrt var hjá um staði og fólk og svo tóku þaulvanir og flottir leiðsögumenn á móti okkur á sínum sögufrægu heimaslóðum annar í Fljótsdalshéraði og alla leið að Aðalbóli í Hrafnkelsdal og hinn tók við hópnum á norðurlandi og kynntu þeir okkur fyrir sögu og staðháttum sögunnar. Við kláruðum svo hringinn í sjávarrétta súpu á Hvammstanga og héldum þaðan beinustu leið heim.

Sumarferðirnar okkar byrjuðu strax upp úr miðjum júní þar sem haldið var á Reykjanesið í ævintýralega ferð með flottum fararstjóra sem kynnti okkur fyrir tröllskessu og suðrænum ávöxtum. Næsta ferð var síðan Kerlingafjöll og heilsað þar upp á kerlingu, þriðja ferðin var í Húsafell og haustferðin í boði Guðmundar Tyrfingssonar var í september á sunnanvert Reykjanesið og Grindavík.

Fréttabréf voru gefin út vor og haust með svipuðu sniði og verið hefur undanfarin ár með yfirliti yfir helstu málefni félagsins. Með haustbréfinu fylgir alltaf stundatafla vetrarins. Starf stjórnar felst með annars í þvi að halda utan um stundatöflu vetrarins og að allt gangi eðlilega fyrir sig.

Hauststarfið byrjaði aftur eftir sumarfrí 7. september með hefðbundnum hætti, sem er nokkuð fyrr en verið hefur, við í stjórninni teljum að það lofi góðu, þar sem þetta jafnar haust og vorönn.

Árshátíðin var síðan haldin í Hótel Selfoss í byrjun nóvember undir stjórn Þóru Grétars., Óla Back og Halldórs Inga, ég var fjarri góðu gamni, en þið sem voruð hafið örugglega notið góðra veitinga og skemmtunar.
Árinu 2018 lauk svo með aðventuhátíð í nýja salnum okkar sem ekki er búin að fá nafn ennþá og skrifuðu 246 mans í gestabókina, þröngt var á þingi, hátalarakerfið ekki með en hátíðin með sínum flottu listamönnum tókst stórslysalaust og nægjanlegt meðlæti handa öllum hjá veitingakonunni Hugrúnu.

Ég þakka öllu því góða fólki sem kemur hingað aftur og aftur til að skemmta okkur í opnu húsi. Það er ekki sjálfgefið að koma hingað fyrir kaffibolla og meðlæti til að gleðja okkur. Þetta er hópur af ljúfum og óeigingjörnum listamönnum sem koma aftur og aftur til að gleðja okkur.

Einnig þakka ég öllum nefndarmönnum, leiðbeinendum og umsjónarmönnum fyrir óeigingjarnt og vel unnin störf, án ykkar væri félagið ósköp lasburða.

Þakkir flyt ég Guðmundi Tyrfingssyni og Sigríði konu hans, fyrir þeirra velvilja í garð eldri borgara og einnig þakka ég Helgu og Ragnhildi hjá Tónlistaskóla Árnesinga fyrir þeirra jákvæðni og aðstoð við fjölföldun gagna til margra ára en nú er því samstarfi lokið.

Síðast en ekki síst þakka ég öllum stjórnarmönnum sem ég hef starfað með í gegnum árin og þá ekki síður núverandi stjórn, þeim Önnu Þóru, Gunnsteini, Gunnari og Guðfinnu ásamt Jósefínu og Eysteini sem hætta störfum eins og ég. Ég þakka þeim fyrir skemmtileg og góð kynni og ykkur félagar góðir fyrir þolinmæði og velvild í minn garð.

Góðar stundir
Sigríður J. Guðmundsdóttir formaður.


Frá vinstri:  Guðfinna Ólafsdóttir, Gunnar E. Gunnþór Gíslason, Jósefína Friðriksdóttir, 
Anna Þóra Einarsdóttir, Eysteinn Ó. Jónasson og Sigríður J. Guðmundsdóttir formaður til 6 ára.