Fundargerð árið 2018

. Published on .

Fundargerð 38. aðalfundar Félags eldri borgara Selfossi 22. febrúar 2018

1. Fundarsetning. Formaður félagsins, Sigríður J. Guðmundsdóttir, setti fundinn og bauð fundarfólk velkomið

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Formaður gerði tillögu um Sigrúnu Ásgeirsdóttur sem fundarstjóra og Helga Helgason sem fundarritara, var það samþykkt.

3. Minnst látinna félaga. Sigrún tók við fundarstjórn og minntist þeirra félaga sem látist hafa á liðnu starfsári en þeir eru 16 talsins. Vottuðu fundarmenn þeim virðingu með því að rísa úr sætum.

4. Fundargerð síðasta aðalfundar. Helgi Helgason las fundargerð aðalfundarins sem haldinn var 23. febrúar 2017.

5. Skýrsla stjórnar. Sigríður Guðmundsdóttir, formaður, flutti skýrsluna.

Í árslok 2017 voru félagar orðnir 594 og hafði þá fjölgað um 29 á árinu. 62 gengu í félagið en auk þeirra 16 sem létust voru 17 sem hættu vegna brottflutnings eða annara ástæðna.
Nokkrar mannabreytingar urðu í stjórn og varastjórn á síðasta aðalfundi (sbr. fundargerð þess fundar) Níu stjórnarfundir voru haldnir, sá fyrsti að loknu sumarhléi, í ágúst en vetrarstarfið hófst snemma í september. Nýr fulltrúi félagsins, Guðfinna Ólafsdóttir, tók sæti í Öldungaráði Árborgar í stað Sigríðar Ólafsdóttur sem gaf ekki kost á áframhaldandi setu í ráðinu.
Mjög góð þátttaka var í starfsemi félagsins, t.d. opnu húsi þrátt fyrir þrengsli í núverandi aðstöðu. Byggingaframkvæmdir við nýtt hús að Austurvegi 51-53 standa nú yfir og í maí n.k. er stefnt að því að taka í notkun nýtt rými fyrir starfsemi félagsins. Framkvæmdastjóri Sveitafélagsins Árborgar kynnti teikningar af nýju aðstöðunni í opnu húsi.
Sjö fastanefndir eru starfandi auk kjörnefndar og hafa allar staðið fyrir hverskonar starfsemi, leikhús- og tónleikaferðir, útivist, íþróttir og dans. Á vetrardagskránni er hefðbundin starfsemi, handverk, föndur og myndlist, bókmenntalestur fornsögur og öndvegisrit. Boðið var námskeið í ritun endurminninga sem 10 tóku þátt í. Í opnu húsi var ýmis afþreying í boði og þar stóð Ingimar Pálsson fyrir fjöldasöng í upphafi og lok dagskrár.
Hörpukórinn var með öflugt starf – eins og fram kemur síðar í þessari fundargerð.
Handverkssýning í tengslum við Vor í Árborg. Vorfögnuður í Hvergerði og lok vetrarstarfs með samkomu í Selfosskirkju þar sem Þorvaldur Halldórsson og Margrét Scheving fluttu tónlist.
Bókmenntaklúbbarnir fóru á söguslóðir, annar vegar Egilssögu og Harðarsögu Hólmverja og hins vegar á æskuslóðir Þórbergs Þórðarsonar. Ferðanefndin stóð fyrir þrem dagsferðum, fyrst til Víkur, Klausturs og nærliggjandi slóða, næst i Þórmörk, Bása og Fljótshlíð og loks til Vestmannaeyja. Að venju bauð Guðmundur Tyrfingsson í haustferð sem að þessu sinni var farin í Mosfellsbæ.
Hauststarfið var hefðbundið. Útgáfa fréttabréfs og árinu lokað með aðventuhátíð í Selfosskirkju.
Stjórnin hefur áhuga á að koma upp Lýðheilsustíg við Sjúkrahúsið og væntanlegt hjúkrunarheimili. Áskorun þess efnis hefur verið send bæjaryfirvöldum og málið komið í góðan farveg. Einnig er unnið að fjáröflun til að koma upp útiíþróttatækjum við Grænumörk 5 fyrir eldri borgara.
Formaður þakkaði öllum þeim sem komið hafa að starfi félagsins bæði utanaðkomandi aðilum og nefndafólki fyrir frábær störf. Sérstakar þakkir til Guðmundar Tyrfingssonar og konu hans. Enn fremur til starfsfólks Tónlistarskólans fyrir aðstoð við fjölföldun gagna.
Fundarstjóri gaf orið laust um skýrslu stjórnar. Ólafur Ólafsson kvaddi sér hljóðs og lýsti óáængju sinni með hönnun og útfærslu á gluggum í nýju félagsaðstöðinni. Aðrar athugasemdir komu ekki fram.

6. Ársreikningar fyrir árið 2017. Guðmundur Guðmundsson gjaldkeri félagsins lagði fram og skýrði reikningana og voru niðurstöðutölur eftirfarandi:
Rekstrarreikningur kr. 3.705.969
Þar af gjöld umfram tekjur kr. 92.585
Efnahagsreikningur kr. 3.564.807
sem er hrein eign, en skuldir eru engar.
Fundarstjóri gaf kost á umræðum um reikningana. Björg Sörensen kvaddi sér hljóðs og átaldi að ekki hefði komið fram í skýringum gjaldkera að hætt væri að niðurgreiða námskeið í postulínsmálun sem hún hefur staðið fyrir s.l. 10 ár. Vildi fá skýringar á þeirri ákvörðun. Árni Erlendsson spurði um tekjur af spilakvöldum, sagðist ekki sjá neitt um þær í reikningnum.
Gjaldkeri svaraði athugasemdum. Umsjónarmönnum spilakvölda var heimilað að nýta innkomuna i kostnað við verðlaun. Niðurfelling afsláttar af námskeiðsgjöldum er tilkomin vegna sparnaðar til að takmarka hækkun félagsgjaldsins.
Björg var ósátt við þessa skýringu og greiddi atkvæði gegn reikningunum en aðrir fundarmenn samþykktu.

7. Árgjald félgsins fyrir árið 2018. Gjaldkeri mælti fyrir tillögu stjórnar - Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi, haldinn 22.febrúar 2018 samþykkir að árgjald félagsins fyrir árið 2018 verði kr. 3.000.
Engar umræður urðu um tilllöguna og var hún samþykkt af megin þorra fundarmanna, en einn greiddi atkvæði gegn tillögunni.

8. Kosning í aðalstjórn, varastjórn, skoðunarmanna og fulltrúa í kjörnefnd.

 1. Kosning gjaldkera, Guðmundur Guðmundsson gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var tillaga kjörnefndar um Eystein Jónasson í starf gjaldkera samþykkt einróma.
 2. Kosning eins fulltrúa í varastjórn til tveggja, Stefán Magnússon gaf ekki kost á endurkjöri. Tillaga um Gunnar Þórðarson samþykkt einróma.
 3. Kosning skoðunarmanna, Helgi Helgason og Einar Jónsson endurkjörnir samhljóða.
 4. Kosning eins fulltrúa í kjörnefnd, til þriggja ára, í stað Margrétar Gunnarsdóttur, sem lokið hefur kjörtíma sínum. Tillaga um Guðmund Guðmundsson samþykkt einróma.

9. Ágrip Hörpukórsins 2017. Gunnþór Gíslason, formaður Hörpukórsins sagði frá vetrarstarfi kórsins sem hófst í oktober s.l. Kórinn kom víða við, söng á árshátíð félagsins 11. nóvember og á 60 ára afmælishátíð Ljósafossvirkjunar 25. nóv. Á aðventunni var mikið um að vera, jólahátíð félagsins í Selfosskirkju, árlegir aðventutónleikar í Selfosskirkju þar sem vígður var nýr flygill og gafst viðstöddum kostur á að styrkja kaupin með kaupum á strengjum í flyglinum. Hörpkórinn brást fljótt við og fjárfesti í tveim G-strengjum. 14. des heimsótti kórinn hjúkrunarheimilin, Sólvelli á Eyrarbakka, Ljósheima og Fossheima á Selfossi þar sem flutt voru Ellyar- og jólakryddlög. Á eftir stóðu þær Arndís Erlingsdóttir og Margrét Karlsdóttir fyrir veitingum í Grænumörk 5. Næsta dag var svo haldið að Sólheimum í Grímsnesi, sungið og glaðst með heimafólki og veitingar þegnar. Þegar heim kom var farið saman út að borð, að venju og þar með komið jólafrí. Framundan er slatti af tónleikum og ferð til Írlands fyrir sumarfrí. Gunnþór þakkaði stuðning og velvilja í garð kórsins. Sérstakar þakkir til söngstjórans, Guðmundar Eiríkssonar fyrir óeigingjarnt starf.

10. Framhaldsaðalfudur Landssambands eldri borgara verður haldinn 24. apríl n.k. þar sem málefnið um breytingar á lögum félagsins verða ráðin, en þau hafa verið í endurvinnslu s.l. ár.

11. Önnur mál.

 1. Sigríður Ólafsdóttir kvaddi sér hljóðs og talaði um kaffiveitingarnar sem eru mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins. Sagði að gjarnan mættu fleiri koma að þeirri vinnu, sérstaklega í afleysingar.
 2. Áskorun til bæjarstjórnar Sveitarfélgasins Árborgar
  Guðfinna Ólafsdóttir mælti fyrir eftirfarandi tillögu:
  „ Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi, haldinn 22. febrúar 2018, skorar á Sveitarfélagið Árborg að endurskoða reglur um afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi.
  Fasteignamat í Svf. Árborg hefur hækkað umtalsvert að undanförnu og álögð gjöld í samræmi við það.Tekjur eldri borgara hafa ekki hækkað að sama skapi og eru margir þeirra að borga fasteignagjöld sem svarar einum mánaðarlaunum á ári en afslættir eru nánast miðaðir við ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins sem hæstur getur orðið 300.000 kr fyrir skatt.“
  Tillagan borinn upp og samþykkt samhljóða.
 3. Sigríður Guðmundsdóttir, formaður kvaddi sér hljóðs og bauð nýja stjórnar- og varastjórnarmenn velkomna til starfa. Einnig kallaði hún upp fráfarandi stjórnarmenn, þá Guðmund Guðmundsson og Stefán Magnússon og færði þeim blóm með þökkum fyrir vel unnin störf.

Fundi slítið.

Helgi Helgason, fundarritari