Ársskýrsla v/2014

. Published on .

Ársskýrsla fyrir árið 2014

Send til LEB.

Samkv. Samingi við Sveitafélagið Árborg skipuleggur stjórn FEB Selfossi tómstundastarf fyrir félagsmenn frá lok september til miðs maí mánaðar ár hvert. Lögð er áhersla á úrval námskeiða og tækifæra til fjölbreyttrar frístundaiðkunar og hollrar hreyfingar. Þakkir á sveitafélagið fyrir árlegan peningastyrk ásamt því að leggja félaginu til húsnæðið að Grænumörk 5, og fleiri íverustaði eins og íþróttasali út í bæ án endurgjalds, sveitafélagið stendur eins og klettur á bak við félagið og værum við ekki stór ef þeirra nyti ekki við. Starfsemi félagsins er margþætt og fer að mestu fram í húsi sveitafélagsins að Grænumörk 5, en ég mun nefna þá staði í ársskýrslunni sem eru nýttir í þágu félagsins í öðru húsnæði.

Strax á mánudagsmorgnum hefst lestur fornbókmennta sá hópur telur um 80 mans. kl. 10:00 kemur rúta frá fyrirtæki Guðmundar Tyrfingssonar og fyllir farartækið hjá sér af göngugörpum, sem heldur síðan út fyrir bæinn með hópinn sem gengur í klukkustund og fylgir rútan þeim eftir svo þeir sem ekki treysta sér í langa göngu geta farið í rútuna þegar hentar. Á sama tíma er glerlist og eftir hádegi er frjáls spilamennska, og síðan mætir annar hópur í glerlist. Prjón og föndur undir leiðsögn eru á dagskrá eftir hádegi og tréútskurður sem fer fram undir leiðsögn í bílskúr út í bæ. Eftir fjögur hittist góður hópur í nónsöng ( ekki alveg rétt hugtak en hentar okkur) og syngur þar hver með sínu nefi undir stjórn Inga Heiðmars Jónsonar orgelleikara og síðan endar mánudagurinn á öðrum hóp í tréútskurði.

Á þriðjudögum byrjar dagurinn á glerlist, Postulíns málun fer fram undir leiðsögn í heimahúsi. Félagsvist er spiluð eftir hádegi og þá kemur líka annar hópur í glerlist. Sumban er á sínum stað, tréútskurðurinn í bílskúrnum og endar dagurinn á sundleikfimi.

Miðvikudagar byrja á postulínsmálun í heimahúsi, boccia er í íþróttasal út í bæ, ísl. öndvegisrit eru lesin í klukkustund og Bjartur í Sumarhúsum tekin og skoðaður. Myndlist undir leiðsögn er eftir hádegi og Bridge fyrir byrjendur, Hörpukórinn er með sínar æfingar og línudans framhaldshópur endar daginn.

Fimmtudagurinn byrjar á Boccia í íþróttasal út í bæ, Glerlistin er á sínum stað bæði fyrir og eftir hádegi, Opna húsið okkar byrjar síðan kl. 13:00 m/ handavinnu undir leiðsögn, bridge fyrir lengra komna og frjálsri spilamennsku. Kaffikonurnar taka til starfa og bjóða síðan upp á kaffi og meðlæti kl. 14:45, eftir kaffi mætir dagskrárnefndin og bíður hún upp á fjölbreytta dagskrá hverju sinni og allt eru það sjálboðaliðar sem gefa vinnu sína til okkar. Dagurinn endar svo á línudans fyrir byrjendur og sundleikfimi.

Föstudagurinn er stuttur hjá okkur þá eru tvö námskeið í glerlistinni og laugardagurinn býður upp á stólaleikfimi.

Snoker er stundaður alla daga vikunnar og eins er með Bridgarana þeir koma og fara oft að vild.

Við gefum út fréttabréf að vori og annað að hausti. Leshópur fornbókmenntana fer í ferð á hverju vori eftir að lestri lýkur og s.l. vor fórum við t.d. á slóðir Grettis og næsta vor ætlum við að halda til Orkneyja eftir að hafa stúderað jarlana þar. Þriggja daga handverksýning er á vorin og fylgir oft sama tíma og vor í Árborg. Vorfögnuður var í Hótel Selfoss í lok maí og mættu 140 mans þar. Þrjár dagsferðir voru farnar í sumar á vegum ferðanefndar og haustferðin okkar sem Guðmundur Tyrfingsson býður á hverju hausti var farin 9. sept. s.l. og fóru þrjár fullar rútur um Hvalfjörð og enduðu í Gamla Kaupfélaginu á Akranesi í kaffihlaðborði. Við höldum Aðventuhátíð með jólastemmingu og söng og eins mætum við í kirkju á uppstigningadag þar sem kirkjan helgar þeim degi öldruðum og árshátíð höldum við alltaf í byrjun nóvember og ekki má gleyma leikhúsferðunum en þær eru um 4-5 á hverjum vetri ýmist til Rvíkur eða í sveitirnar hér í kring.

Þessi starfsemi gæti ekki haldið velli nema fyrir óeigingjarnt starf félagsmanna sem styrkja félagið með því að gefa ómælda vinnu sína en um 30 leiðbeinendur halda utanum nefndirnar. Fjórir leiðbeinendur eru verktakar og aðrir sex eru á launum hjá félaginu.

Það er mikil starfsemi búin að vera í gangi s.l. ár, varðandi framtíðarhúsnæði fyrir félagið og hafa bréfaskriftir og erindi til bæjarstjórnar, byggingafulltrúa og framkvæmda- og veitustjóra Árborgar verið nokkuð margar varðandi okkar mál, þar sem við erum löngu búin að sprengja húsnæðið að Grænumörk 5 utanaf okkur. Framtíðardraumur hefur verið að fá lóðina v/Austurveg 51 til ráðstöfunar fyrir FEB, en það er lóðin sem stendur næst Grænumörkinni og virðist sem við séum að ná árangri í því máli þar sem ætlunin er að hefja byggingaframkvæmdir á 3ja hæða húsi með tengibyggingu á milli húsanna og á þetta húsnæði að þjóna ýmsu fyrir aldraða eins og dagvistun og Félag eldri borgara á Selfossi.

Ég vona að þið séuð einhverju nær um starfsemi Félags eldri borgara á Selfossi.

Kærar kveðjur

____________________________

Sigríður J. Guðmundsdóttir formaður (Sirrý Guðmunds) (sign)

Stjórn FEB 2014