Í upphafi árs 2022

on .

 

Stjórn Félags eldri borgara á Selfossi óskar félagsfólki gleðilegs árs og þakkar samskipti og auðsýnda þolinmæði á liðnu ári. 

Öll skulum við vera bjartsýn og vongóð í uppafi nýs árs þrátt fyrir óáran og vonbrigði með þróun Covid 19 að undanförnu. 

„Það er ekkert sem gefur tilefni til þess að slakað verði á sóttvarnaaðgerðum í bráð“ eru orð Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá Almannavörnum, í upphafi árs 2022.  Þessi orð gefa ekki tilefni til að farið verði af stað með félagsstarf eldra fólks á vegum Félags eldri borgara á Selfossi annað árið í röð.  Stjórn FEBSEL mun funda um stöðu mála næstkomandi miðvikudag.  Niðurstaða hans verður kynnt í kjölfarið á facebook og heimasíðu félagsins.

Maður ársins hjá Stöð 2, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, var í viðtali við Eddu Andrésdóttur á Stöð 2, þar sem hún biðlaði til þjóðarinnar að halda ró, taka einn dag í einu, eina viku út janúar.  Hún hafði fulla trú að þá yrði betur hægt að sjá fram í tímann hvað væri að gerast.  Staðan núna er hrein og klár óvissa og eina ráðið til að grípa í er að sýna, eins og við höfum gert svo vel, að vera þolinmóð og vongóð.  Um framhaldið leyfi ég mér að nota kunnulega setningu, „Það verður bara að koma í ljós“ með það.